Námskeiða- og fræðslustarf vetrarins kynnt og Telma L. Tómasson, með fyrirlestur um hringteymingar á morgun miðvikudag.
Fræðslunefnd Fáks kynnir blómlegt námskeiða- og fræðslustarf vetrarins og Telma heldur fyrirlestur sem heitir „Hringteymingar: skokk í hringi eða markviss þjálfun?“ á morgun miðvikudaginn, 23. september kl. 20.00.
Kynntu þér hvaða einkatímar, paratímar, mánaðarnámskeið, helgarnámskeið og fyrirlestrar eru í boði í vetur, hvernig á að skrá sig og hvað hentar hverjum.
Nokkrir reiðkennarar mæta á staðinn, kynna sín námskeið og svara spurningum.
Þá verður áhugaverður fyrirlestur um hringteymingar og hvers kyns vinnu frá jörðu sem nýtur sí vaxandi vinsælda.
Telma L. Tómasson, Fáksfélagi og reiðkennari frá Hólum spjallar um hringteymingar, tilgang þeirra og markmið.
Hún veltir upp spurningum: hvað eru hringteymingar? Til hvers eru þær? Hvernig er farið að? Hvenær eru þær notaðar? Og gagnast þær öllum?
Fundurinn verður haldinn í salnum í TM reiðhöllinni. Við minnum á regluna um 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, sjá nánar á https://www.covid.is/.
Fyrirlestrinum verður einnig streymt beint á Facebook síðu Fáks.
Frítt inn og allir hestamenn velkomnir á staðinn eða í beina útsendingu.
Athugið að fyrirlestrar og námskeið á vegum Fáks eru einnig opin félögum í öðrum hestamannafélögum.