Hestaíþróttaklúbburinn byrjar vetrarstarfið þann 14. janúar. Námskeiðið mun skiptast upp í tvær lotur á þessari önn! 🙂 Fyrri lotan stendur yfir 7 vikna tímabil og stefnt er að því að halda aðra námskeiðslotu í mars. Þessi tvískipting er gerð með það í huga að bjóða upp á styttra tímabil með möguleika á áframhaldi ef röskun verður á starfinu vegna veirunnar. Stefnt er að öðru námskeiði í mars. Að þessu sinni verða tímarnir í formi fámennra hópatíma og skipt upp eftir aldri.

Námskeið fyrir 7 – 9 ára og 9 – 12 ára

Fyrri lotan er almennt reiðnámskeiðið sem byggir á að nemendur byrja strax að tileinka sér vandaða reiðmennsku og viðeigandi vinnubrögð. Lærdómurinn fer að miklu leyti fram í gegnum kennslu sem byggir á skýrum fyrirmælum, endurtekningum og jákvæðri endurgjöf. Unnið er að því að nemendur tileinki sér notkun reiðvallarins og æfi stjórnun í gegnum fjölbreyttar reiðleiðir, mismunandi ásetugerðir og þjálfun gangtegunda. Lögð er áhersla á að byggja upp kennsluna eftir færni og getu nemenda og að nemendur taki þátt í að móta tímana eftir því sem þau telja sig þurfa að æfa til þess að auka sjálfstæði þeirra jafnt og þétt í reiðmennsku. Athugið að hópur fyrir 7 – 9 ára er ætlað fyrir þá nemendur sem að treysta sér til þess að ríða hraðar en fet 🙂

Reiðkennari er Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir

Tímabilið: 14. janúar – 26. febrúar
Verð 29.500 kr

8 reiðtímar + óhefðbundin keppni í lok námskeiðs

Tímasetningar:
Kennslan fer fram 1x í viku á föstudögum (tímar á milli 15.30 og 19.00) eða á laugardögum (á milli 9 og 13). Tímasetningar ráðast þegar skráningu líkur.

Skráning fer fram á Sportabler.com

12 ára og eldri

Fyrri lotan er markmiðasetninga námskeið fyrir 12 ára og eldri. Kennslan er einstaklingsmiðuð. Í upphafi námskeiðs setur hver og einn nemandi niður skýr markmið með reiðkennurum fyrir sig og hestinn sinn sem nær yfir 5 vikna tímabil. Markmiðin geta verið margvísleg; sumir setja sér ákveðin markmið í tengslum við uppbyggingu og þjálfun hestsins, aðrir vilja undirbúa sig fyrir keppni eða langar að þreyta verklegt knapamerkjapróf.

Samhliða markmiðaþjálfun verður lögð rík áhersla á vinnu við hendi. Vinna við hendi er grundvöllur að farsælum samskiptum á milli knapa og hests. Það er rökrétt að nemendur tileinki sér góða færni í slíkum vinnubrögðum þar sem það eykur verulega líkur á að hesturinn skilji ábendingar knapans og að búið sé að kenna hesti og auðvitað knapa að framkvæma grunnfærni áður en flóknari færni er innleidd. Tímarnir eru í formi paratíma og/eða fámennra hópatíma og verður knöpum raðað saman eftir áherslum með tilliti til markmiða, reynslu knapa og tamningastigi hests. Stefnt er að öðru námskeiði í mars sem gefur nemendum tækifæri til að spreyta sig sjálfstætt á milli námskeiða.

Reiðkennari er Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir

Tímabilið: 14. janúar – 26. febrúar
Verð 39.500 kr
12 reiðtímar + óhefðbundin keppni í lok námskeiðs

Tímasetningar:
Föstudagar og laugardagar (tímasetningar ráðast þegar skráningu líkur)

Skráning fer fram á Sportabler.com

Pollanámskeið

Námskeið fyrir yngstu kynslóðina hefst þann 30. janúar! Lögð verður áhersla á að nemendur öðlist meira jafnvægi og stjórn á hestinum ásamt því að efla sjálfstraust þeirra á baki í gegnum leik og þrautir. Í kennslunni verða samtvinnaðar æfingar í reiðleiðum, ásetu og stjórnun.

Reynt verður að hafa eftirfarandi getustig saman og biðjum við þau sem skrá börnin sín að senda póst á Karen hvaða hópi barnið tilheyrir: icelandkaren[hja]gmail.com
* 4-6 ára (teymdir)
* 4-6 ára
* 6-8 ára (fet)
* 6-8 ára (fet, tölt/brokk)

Reiðtímar eru sex talsins og 40 mínútur hver tími. Foreldrar þurfa sjálfir að teyma börnin og gott er ef eitt foreldri fylgir barni í tímana og fylgist með.

Tímasetningar: Sunnudagar frá kl. 09:00.

Verð: 14.500.

Reiðkennari: Sif Jónsdóttir

ATH! Við bendum á að nemendur sem eru 7 ára eða eldri og eru komnir með gott vald á stjórnun hestsins og orðnir vel öruggir á tölti/brokki geta skráð sig á Fákar og fjör námskeið.

Skráning fer fram á Sportabler.com