Í ljósi fordæmalausra aðstæðna af völdum kórónafaraldursins, takmarkana á skólahaldi og samkomubanns sem veldur því að íþróttastarf liggur niðri hafa vaknað spurningar um endurgreiðslu æfingagjalda íþróttafélaga. ÍSÍ og UMFÍ hafa leitað ráðgjafar varðandi endurgreiðslu æfingagjalda.
Samkvæmt þeirri ráðgjöf eru þessar aðstæður sem nú eru uppi dæmi um ytri atvik sem ekki voru fyrirséð og ekki unnt að koma í veg fyrir. Sú staðreynd að íþróttafélög geta ekki veitt þjónustu sína telst því almennt ekki vanefnd gagnvart iðkendum. Iðkendur geta því ekki krafist þess að æfingar fari fram með hefðbundnu sniði né krafist skaðabóta vegna þess að æfingar hafa fallið niður. Hins vegar þarf að koma til móts við iðkendur vegna þess tímabils sem æfingar liggja niðri.
ÍSÍ og UMFÍ mæla með því að félögin haldi áfram að þjónusta iðkendur með fjar- og heimaæfingum eins og best er kostur. Þá er einnig mælt með því að félögin komi til móts við iðkendurna og forráðamenn þeirra með því að lengja æfingatímabilið eða bjóða upp á aukaæfingar og/eða námskeið. Tímalengd og fyrirkomulag ræðst af því hversu mikla þjónustu félögin hafa getað veitt á meðan samkomubannið varir.
Aðstæður og uppsetning æfingafyrirkomulags er gífurlega mismunandi milli eininga í íþróttahreyfingunni og því mjög erfitt að gefa eitt algilt svar fyrir hreyfinguna umfram það sem hér kemur fram.
Ljóst er að allir landsmenn standa saman gegn vágestinum sem nú skekur heimsbyggðina. Aðdáunarvert að sjá að allir leggja sitt af mörkum til að hefta útbreiðslu hennar. Margir leggja mikið á sig í því verki. Starfsfólk, þjálfarar og iðkendur íþróttafélaga hafa þrátt fyrir aðstæður reynt eftir bestu getu að uppfylla skyldur sínar þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður og hvetjum við til þess að svo verði áfram.
ÍSÍ og UMFÍ leggja áherslu á í tilmælum sínum að ábyrgð og ákvörðun um tilhögun og ráðstöfun æfingagjalda er alfarið á forræði aðildarfélaganna sjálfra og/eða deilda þeirra.
Stendur því fyrri tilkynning stjórnar Fáks um að þegar samkomubanni lýkur þá hefjist kennsla að nýju og námskeiðum verði lokið.