Aðalfundur Fáks fór fram í félagsheimilinu þann 30. apríl síðastliðinn.
Starfsmenn fundarins voru kosin Sigurbjörn Magnússon fundarstjóri og Hilda Karen Garðarsdóttir ritari. Mæting var góð.
Formaður, Hjörtur Bergstað, fór yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2023. Eitt fyrsta verk síðustu stjórnar var að halda félagsfund varðandi aðkomu Fáks að halda Landsmót með Spretti á félagssvæði Fáks 2024. Fundurinn samþykkti það og var gengið frá samningum við Landsmót ehf. og Sprett um haustið. Reykjavíkurborg samþykkti einnig að veita styrk til félagsins sem notaður verðu í viðhald á keppnisvöllum, reiðvegum og reiðhöllinni í Víðidal.
Félagið sendi til Reykjavíkurborgar í haust ósk um afnotaleyfi af landi þar sem kerrusvæðið og nærliggjandi tún eru. Samningar hafa náðst og fyrirhugar félagið að skipuleggja beitarhólf fyrir félagsmenn á túnunum. Þá er einnig fyrirhugað að skipuleggja kerrusvæðið svo þar verði merkt stæði sem félagsmenn geta pantað og greitt árgjald fyrir.
Starfsárið var með nokkuð hefðbundnu sniði hvað varðar starf félasstarfið en allir helstu viðburðir og mót voru á sínum stað. Þá fékk félagið um 8 milljónir í reiðvegi.
Hlíf Sturludóttir kynnti ársreikning félagsins fyrir árið 2023 ásamt því sem Sigrún Valdimarsdóttir lagði fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Rekstrartekjur félagsins voru 125,7 milljónir samanborið 115,6 milljónir 2022. Rekstrargjöld voru 115,3 milljónir samanborið við 109.2 milljónir árið 2022. Hagnaður af rekstri þegar búið er að taka tillit til afskrifta og fjármagnsgjalda er 3,3 milljónir. Ársreikning félagsins má finna undir flipanum <Um Fák> hér að ofan.
Var ársreikningur og fjárhagsáætlun borin undir atkvæði fundarins og var hann samþykktur samhljóða.
Á dagskrá fundarins voru kynntar hugmyndir um að byggja reiðhöll norðan núverandi reiðhallar. Hópur félagsmanna hefur leitað til stjórnar um að taka þátt í fjármögnun á slíkri aðstöðu og eru hugmyndir um að byggja allt að 1600 fermetra kennslu- og æfingahöll. Fákur myndi eiga og reka húsið. Fundurinn samþykkti samhljóða að veita stjórn heimild til frekari viðræðna og þegar fjármögnun og hönnun liggja fyrir verður boðað til sérstaks félagsfundar.
Kosning til stjórnar fyrir starfsárið 2024-2025 fór eftirfarandi:
- Hjörtur Bergstað, formaður
- Hákon Leifsson, gjaldkeri
- Ívar Hauksson, ritari
- Sigrún Valdimarsdóttir, meðstjórnandi
- Sigurður Elmar Birgisson, meðstjórnandi
- Vilfríður Fannberg Sæþórsdóttir, meðstjórnandi
- Þormóður Skorri Steingrímsson, meðstjórnandi
Ákvörðun árgjalds 2025 er eftirfarandi:
- Fullorðnir 21.500 krónur
- Ungmenni 8.800 krónur
Undir liðnum önnur mál var meðal annars rætt um öryggi við reiðvegi en nú standa yfir framkvæmdir við gömgi- og hjólastíga auk þess sem umferð gangandi og hjólandi eykst með hækkandi sól. Þá kynnti Dagný Bjarnadóttir helstu verkefni í reiðvegamálum framundan en meðal annars þá verður lagður nýr reiðvegur meðfram vegi áður en komið er að Elliðavatnsáli í Heiðmörk.