Vinna við hendi og hringteymingar – Grunnnámskeið
Farið verður í hvernig hægt er að notast við vinnu við hendi til að hjálpa hestinum að skilja grunnábendingar og að ná betri stjórn á yfirlínu og andlegu og líkamlegu jafnvægi. Grundvöllur árangurs er að hesturinn sé sáttur og skilji ábendingar knapans, hvort sem það er frá jörðu eða á baki. Einnig verður farið í grunnatriði í hringteymingum og hvernig hægt er að nota það sem viðbót við fjölbreytta þjálfun til að byggja upp réttu vöðvana í hestinum.
Kennt er á þriðjudögum, 4x skipti, 60 mín.

Grunnnámskeiðið er hugsað fyrir þá sem ekki hafa farið á námskeið hjá Hrafnhildi áður og fyrir þá sem hafa komið áður en vilja skerpa á vinnubrögðunum eða eru með nýjan hest sem kannast ekki við vinnubrögðin. Hver og einn kemur með eigin hest og búnað.

Vinna við hendi og hringteymingar – Framhaldsnámskeið
Framhaldsnámskeiðin bjóða upp á einstaklingsmiðaðri nálgun en haldið verður áfram með bæði vinnu í hendi og hringteymingar. Farið verður í fimiæfingar frá jörðu sem stuðla að því að auka sveigjanleika og styrk hestsins, ásamt aukinni nákvæmni í ábendingum knapa.
Einnig verður farið í meira krefjandi æfingar í hringteymingu sem stuðla að auknu jafnvægi og bættri líkamsbeitingu hestsins. Kynntar verða brokkspírur og hindranir á uppbyggilegan hátt, sem verða notaðar til að auka erfiðleikastig á einstaklingsmiðaðan máta.
Til að gæta jafnræðis meðal nemenda er ætlast til þess að þeir sem komi á framhaldsnámskeið hafi komið á námskeið til Hrafnhildar á undanförnum 2 árrum. Hver og einn kemur með eigin hest og búnað. Kennt er á þriðjudögum, 4x skipti, 60 mín.

Brokkspíru- og hindrunarstökksþjálfun – Framhaldsnámskeið
Þetta námskeið er fyrir þá sem vilja taka brokkspíru- og hindrunarstökksþjálfunina enn lengra, bæði í hendi og á baki. Forkröfur að þessu námskeiði eru að þjálfari og hestur hafi farið í gegnum a.m.k. grunnnámskeið og 1x framhaldsnámskeið. Er það til þess að tryggja að slík þjálfun hafi ekki neikvæð áhrif á hestinn með því að fara of geyst, svo andleg og líkamlega heilsa hestsins sé höfð í fyrirrúmi. Ef vilji er fyrir hendi, þá getur knapi byrjað að vera á baki á þessu námskeiði.
Til að gæta jafnræðis meðal nemenda er ætlast til þess að þeir sem komi á framhaldsnámskeið hafi komið á námskeið til Hrafnhildar á undanförnum 2 árum. Hver og einn kemur með eigin hest og búnað. Kennt er á þriðjudögum, 4x skipti, 60 mín.

Skráning fer fram hér: Sportabler.