Fákar og Fjör!
Þá er komið að því! Skráning er hafin í hestaíþróttaklúbbinn Fákar og Fjör sem mun hefjast á ný í lok ágústmánaðar.
Fákar og Fjör hóf göngu sína haustið 2014 en klúbburinn gefur æskunni tækifæri til þess að stunda hestamennsku á ársgrundvelli. Markmið hestaíþróttaklúbbsins er að færa hestamennskuna á sama stall og aðrar íþróttagreinar og auka þannig færni, þekkingu og félagsleg tengsl barna og unglinga. Hestamennskan sem íþróttagrein er frekar einstaklingsmiðuð en með því að auka samhug og samvinnu getur hestaíþróttin sem hópgrein verið mikilvægur þáttur í forvörnum og uppeldisþætti barna og unglinga.
Væntingar fóru fram úr björtustu vonum síðastliðinn vetur og mynduðust sterk vinatengsl innan hópsins. Dagskráin var þéttskipuð en meðal viðburða var t.d heimsókn til Sigurðar Matthíassonar atvinnuknapa, Helgi Sigurðsson dýralæknir kom í heimsókn, fyrirlestur frá Örnu Ýr Guðnadóttur hestakonu, heimsókn til hestamannafélagsins Harðar þar sem Súsanna Sand flutti fræðsluerindi, keppni innan klúbbsins í þrautabraut með tímatöku og farið í keilu og pizzapartý. Annar stór viðburður vetrarins var stórsýningin Æskan og Hesturinn þar sem 23 knapar úr okkar flokki sýndu vel heppnað atriði sem þau mótuðu sjálf með aðstoð reiðkennaranna. Ekki má gleyma almennri reiðkennslu og útreiðatúrum þar sem lögð var áhersla á uppbyggilega þjálfun hestsins og reiðmennsku knapans.
Veturinn 2015-16 verður stútfullur af fjöri og hér er fjölbreytni lykilorðið. Sú nýbreytni verður að í vetur verður lögð enn frekari áhersla á einstaklingsmiðaða kennslu þar sem hver og einn fær að njóta sína miðað við fyrri reynslu, getu og áhugasvið. Dagskráin er skemmtileg og í senn lærdómsrík og inniheldur m.a reiðkennslu, reiðtúra, vettvangsferðir, fyrirlestra og kennslusýningar ásamt því að bjóða upp á gestakennara. Í reiðkennslunni er lögð áhersla á að á að nemendur tileinki sér og þjálfi upp gagnrýna hugsun gagnvart eigin reiðmennsku og þjálfun hesta sinna.

Það eru þær Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir sem eru forsprakkar klúbbsins. En þær eru einnig reiðkennarar og umsjónarmenn klúbbsins og leggja metnað sinn, áhuga og reynslu við að miðla eigin þekkingu í gegnum í gegnum uppbyggjandi félags- og íþróttastarf.

Hópaskipting fer eftir getu og aldri
1 – Börn með minni reynslu
2 – Börn og unglingar
3 – Unglingahópur með meiri reynslu

Stig 1: Hér er um að ræða börn með minni reynslu á aldrinum 9 – 11 ára sem eru að stíga sín fyrstu sjálfstæðu skref í hestamennsku.
Stig 2: Börn og unglingar sem eru sjálfbjarga á baki og treysta sér til útreiða. Hér er getuskipt í hópa.
Stig 3: Unglingar með töluverða reynslu og getu þar sem lögð er meiri áhersla á krefjandi verkefni, markmiðasetningu og eftirfylgni.

Skilyrði
Stig 1: Klúbburinn sér um að útvega hesta og reiðtygi að haustönn fyrir nemendur en skilyrði er að eiga hjálm og reiðfatnað.
Stig 2 – 3: Aðgangur að hesti og reiðtygjum fyrstu 6 vikurnar að hausti til og frá miðjum janúar í 12 vikur. Að knapi sé sjálfbjarga á baki og treysti sér til útreiða.

Ítarlegur kynningarfundur verður haldinn í Guðmundarstofu þann 13. ágúst kl. 18:30 og hvetjum við alla áhugasama til að mæta og kynna sér starfið.

Skráning og frekari upplýsingar má fá í gegnum e-mail addressuna fakarogfjor@gmail.com eða í gegnum símanúmerin 616-6286 (Sif) eða 865 – 4239 (Karen).