Stjórn Fáks hefur í vetur unnið að deiliskipulagsbreytingu fyrir hestahúsabyggðina á Hólmsheiði.

Er tillaga stjórnar lögð hér fram til kynningar. Athugasemdir varðandi tillöguna skal senda skriflega á netfangið einar@fakur.is í síðasta lagi mánudaginn 10. maí næstkomandi.

Tillöguna má finna í pdf skjali í þessum link.

Breytingar á deiliskipulagi tengdar framtíðar áætlunum eru meðal annars:

  1. Skipta núverandi lóðum við Fjárgötu og Vegbrekkur, sem eru fyrir 4 hús í minni einingar þannig að eitt hús er á hverri lóð.
  2. Kvaðir um lagnaleiðir að nýjum lóðarmörkum.
  3. Bætt við tæplega 2 ha beitarhólfi vestan við svæðið og deiliskipulagssvæðið stækkað til samræmis.
  4. Við enda Almannadalsgötu er stæðum fjölgað úr 9 í 13.
  5. Útfrá bílastæðinu við Almannadalsgötu er tenging inn á um 2000m2 plan fyrir heyrúllur.
  6. Vestan við reiðskemmu/félagsheimili er gert ráð fyrir allt að 800m2 reiðskemmu á 1128m2 lóð og hringgerði fært norðar.
  7. Við enda Fjárgötu er gert ráð fyrir allt að 800m2 reiðskemmu á 1836m2 lóð . Reiðstígurinn aðlagaður þessu.
  8. Áætlað bílastæði við syðri enda Ásagötu er breytt að lögun og fækkað um 1 stæði, 13 í stað 14. Lóðarmörk í kringum stæðin felld niður. Þrjú ný stæði áætluð við syðri enda Sturlugötu.
  9. Við enda Fjárgötu er gert ráð fyrir um 1350m2 plani fyrir heyrúllur.
  10. Kerrustæðum norðan við Fjárborgir er fjölgað úr 23 í 28 og staðsett norðan við veginn í stað sunnan við veginn. Lóðarmörk í kringum stæðin felld niður.
  11. Helgunarsvæði við nýjan jarðstreng frá síðustu breytingu sýnt á uppdrætti.
  12. Tenging frá reiðstíg norðan við Fjárborgir inn á nýjan línuveg sem nýttur verður sem reiðleið.

Lagfæringar á uppdrætti til samræmis við núverandi stöðu:

  1. Bremsubeygja er við norðurenda skeiðbrautar.
  2. Tamningagerðið vestan við reiðskemmu/félagsheimili er fært sunnar, á núverandi stað.
  3. Hringgerði, vestan við Vegbrekku 10, ásamt reiðstíg, fært til samræmis við staðsetningu í raun.
  4. Reiðstígur til austurs, út frá deiliskipulagssvæðinu, færður í raun legu.
  5. Núverandi hringgerði við syðri enda Ásagötu fær að halda sér í stað áætlaðs hringgerðis austan við Fjárborgir.

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á greinargerð:
Í kafla 3.1.4. Beitarhólf er bætt við öðru beitarhólfi
Gert er ráð fyrir tæplega 2 ha beitarhólfi vestan við hesthúsasvæðið við Almannadalsgötu.

Bætt við nýjum kafla 3.1.5 Rúlluplan
Gert er ráð fyrir tveimur geymslusvæðum fyrir heyrúllur, um 2000m2 annars vegar og um 1360m2 hins vegar, sjá staðsetningu á uppdrætti.

Í kafla 3.2.2. Ný hesthúsabyggð er textanum breytt í samræmi við að nú eru 4 lóðir í stað einnar fyrir hverja þyrpingu.
Hver þyrping samanstendur af fjórum lóðum. Á hverri lóð er eitt hesthús ásamt loftunargerðum, taðþróm, auk sameiginlegum stígum og aðkeyrsluleið að hlöðum og taðþróm, bílastæðum og svæði út að aðalvegi. Fjarlægð frá húsi að lóðarmörkum er 4m þannig að á milli húsa verða 8m.

Fjarlægð milli styttri húsanna er breytt úr 6m í 8m
Þyrpingarnar eru tvenns konar:
Annars vegar er mjórri gerð af húsum (8,5x 30m) og með þeim tvö stutt hús í stærðinni 12×17,5m með 8m millibili fyrir tvær taðþrær. Hins vegar er breiðari gerðin (12x30m) og með þeim tvö styttri hús í stærðinni12x21m með 8m millibili fyrir tvær taðþrær.

Í kafla 3.3.2 Bílastæði er textanum breytt til samræmis við að nú eru 2 lóðir fyrir 9-12 bílastæði.
Bílastæðin eru sameiginleg og eru þau við hliðar og á milli klasanna næst aðkomugötum. Bílastæðafjöldinn er í samræmi við þá reglu að 1 stæði sé fyrir hverja 50m2 í húsi. Þannig verða kvaðir ýmist 9 eða 12 bílastæði fyrir hverjar 2 hesthúsalóðir, allt eftir stærð húsanna. Bílastæðin eru á þeim lóðum sem liggja að vegunum. Kvöð er á viðkomandi lóð um að bílastæðin tilheyri einnig lóðinni “aftan við” þ.e. sunnan eða vestan við. Frá bílastæðum er kvöð um sameiginlega akfæra leið að hlöðum.
Bílastæðum við enda Almannadalsgötu er fjölgað úr 9 í 13. Við syðri enda Ásgötu fækkar um 1 stæði en 3 stæðum bætt við syðri enda Sturlugötu..

Í kafla 4.3 Reiðskemmur og vallarhús er bætt við tveimur minni reiðskemmum
Tvær minni reiðskemmur, allt að 800m2, eru ætlaðar til æfinga og kennslu. Byggingarreitir eru 20x40m. Skemmurnar skulul ekki vera hærri en 8,0m og þakhalli frá 14°til 22°, mænisstefna NA-SV. Hliðar mega vera allt að 4,5m háar frá gólfi að brún.

Í kafla 4.5 Hús í Almannadal er gerð breyting vegna skiptingu lóðanna sem voru fyrir hverja þyrpingu í 4 lóðir, eina fyrir hvert hús.
Æskilegt er að styttri húsin 2, sem snúa endum saman í hverri þyrpingu, séu af af sömu gerð, svo það myndist heildarsvipur enda þótt taðþróarflötur skilji þau að.

Bætt er við:
Bindandi lína er á 2 vegu í stað þess að vera allur byggingarreiturinn, sjá á uppdrætti.

Í kafla 4.6 Annað er bætt við kvöð vegna lagnaleiða
Kvöð er um annars vegar allt að 8 metra breiða lagnaleið og hins vegar 4 metra breiða lagnaleið.
Þar sem byggingarreitur liggur að kvöð um lagnalaleið þarf framkvæmdaraðili að tryggja að við framkvæmdir verði ekki grafið undan lögnum.