Heilbrigðisráðuneytið hefur, frá og með 11. desember, veitt LH undanþágu frá reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og heimilað hestamönnum notkun reiðhalla með vísan í undanþáguheimild um að vernda líf og heilsu dýra.
Í svari heilbrigðisráðuneytisins segir:
„Í 7. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1223/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, segir að íþróttaæfingar einstaklinga fæddra 2004 og fyrr, hvort sem er innan- eða utandyra með snertingu eru óheimilar sem og íþróttaæfingar án snertingar innandyra. Íþróttaæfingar utandyra án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup, reiðmennska, skíðaíþróttir o.þ.h., að því gefnu að unnt sé að tryggja að ákvæði 3. og 4. gr. séu uppfyllt.
Þrátt fyrir framangreint ákvæði 7. mgr. 5. gr. telur ráðuneytið unnt að líta svo á að jafna megi notkun reiðalla til æfinga utandyra, enda sé ekki um neina sameiginlega snertifleti hestamanna að ræða, að því virtu að starfsmaður reiðhallar hirði gólf og tryggi að ekki sé farið yfir fjöldatakmörk í húsinu sé unnt fyrir LH að nýta reiðhallir. Í þessu skyni hefur ráðuneytið litið til undanþáguheimildar 1. mgr. 8. gr. um að vernda líf og heilsu dýra.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er hestamönnum unnt að nota reiðhallir, að því skilyrðu uppfylltu að snertifletir séu engir og starfsmaður reiðhallar tryggi að svo sé, annist umhirðu gólfs og tryggi að ekki sé farið yfir 10 manna fjöldatakmörk 3. gr. reglugerðarinnar.
Afrit af erindi þessu er sent lögreglunni til upplýsingar“.
LH fagnar því að tekið sé tillit til aðstæðna hestamanna og hestaíþróttarinnar með þessari undanþágu, en minnir jafnframt á að undanþágum fylgir ábyrgð. Einnig er vert að hafa í huga að aðstæður í þjóðfélaginu geta breyst hratt og notendur reiðhalla verða allir sem einn að gæta að persónulegum sóttvörnum í hvívetna. Hvert hestamannafélag ber ábyrgð á sinni reiðhöll og ber að tryggja fjöldatakmarkanir og að engir sameiginlegir snertifletir séu til staðar.