Eftir skrítið tímabil er nú tilefni til að gleðjast yfir komandi sumri og að daglegt líf okkar sé nú að taka á sig eðlilegri mynd. Kjarnakonur, í samstarfi við hestamannafélagið Fák, hefur því ákveðið að bjóða upp á þétt 4 – 5 vikna vornámskeið frá 11. maí.
Þetta er fjórða árið í röð sem við bjóðum upp á slíkt námskeið og ávallt verið góð þátttaka. Helstu kostir námskeiðsins eru: Skýr markmið, þéttar æfingar, bæði bókleg og verkleg kennsla og frábær félagsskapur. Við leggjum mikla áherslu á að nemendur okkar tileinki sér vönduð vinnubrögð og færni í grunnreiðmennsku með það að markmiði að bæta samspil á milli hests og knapa.
Í ár munum við bjóða uppá tvær leiðir.
- Annars vegar 5 vikna námskeið fyrir konur sem hafa áhuga á að þreyta knapamerkjapróf að loknu námskeiði. Knapamerki er stigskipt nám þar sem nemandinn þreytir próf í lok námskeiðsins í fyrirfram ákveðnu reiðverkefni (Sjá nánar: http://knapamerki.is/).
- Hinsvegar bjóðum við uppá 4 vikna almennt námskeið fyrir konur sem vilja öðlast betra traust, meiri stjórn og tileinka sér fleiri tæki og tól í verkfærakistu sína sem nýtist í almennri þjálfun.
Undanfarin misseri hafa kennt okkur ýmsar nýjungar hvað varðar tæknina í uppsetningu á reiðkennslu. Við munum nýta okkur þessa spennandi nýjung að einhverju leiti til að miðla fræðslu í formi fyrirlestra, sýnikennslu og í ýmis önnur hagnýt atriði.
Við förum að sjálfsögðu eftir leiðbeiningum yfirvalda og kappkostum við að tryggja öryggi nemenda okkar.
Nákvæmar tímasetningar munu skýrast í byrjun maí. Kennsla fer fram á virkum dögum og hefst eftir kl. 17. Tveir verklegir tímar á viku ásamt fjarkennslu/fyrirlestrar/sýnikennslur o.s.frv.
Einnig má senda okkur línu á kjarnakonur16@gmail.com fyrir nánari upplýsingar. Skráningar fara fram á skraning.sportfengur.com
Bestu kveðjur,
Sif og Karen reiðkennarar