Þann 22. nóvember síðastliðinn fór fram sameiginleg Uppskeruhátíð Fáks og Spretts í Arnarfelli í Samskipahöllinni. Á hátíðinni voru verðlaunaðir þeir knapar sem náðu framúrskarandi árangri á árinu. Keppnisárið 2024 var okkar Fáksknöpum einkar gjöfult en á Landsmóti hömpuðu þeir 6 af 9 landsmótstitlum eins og áður hefur verið fjallað um. Þá náðu þeir frábærum árangri á öðrum mótum eins og Íslandsmóti og Norðurlandamóti.

Meðfylgjandi eru stigahæstu knapar í hverjum aldursflokki.

Íþróttakarl Fáks – Konráð Valur Sveinsson

Konráð Valur átti frábært ár á kappreiðabrautinni þar sem hann varð tvöfaldur Reykjavíkurmeistari og setti um leið Íslandsmet í 150m skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu. Rúmum mánuði síðar bætti hann svo um betur og setti heimsmet á sama hesti á Íslandsmóti. Þá varð hann einnig Íslandsmeistari í 100m skeiði á Kastor frá Garðshorni á Þelamörk.

Á Landsmóti landaði hann öllum þremur Landsmótstitlunum í skeiðgreinum á Kjarki og Kastor; í 100m, 150m og 250m. Þá er Konráð í efstu sætum í skeiðgreinum á flestum þeim mótum sem hann tók þátt í á árinu og á uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga var Konráð valinn skeiðknapi ársins 2024.

Íþróttakona Fáks – Eyrún Ýr Pálsdóttir

Eyrún Ýr átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni. Á Landsmóti varð hún önnur í forkeppni í A-flokki á Leyni frá Garðshorni á Þelamörk og í milliriðli varð hún efst inn í A-úrslit. A-flokks úrslitin voru gríðar sterk og enduðu þau að lokum í öðru sæti.

Á Landsmóti varð hún einnig fjórða í 150 metra skeiði. Í Meistaradeild Lífland sigraði hún á hesti sínum Hrannari frá Flugumýri fimmgang F1 eftir spennandi keppni. Þá náði hún góðum árangri á öðrum mótum.

Áhugamannaflokkur karlar – Elmar Ingi Guðlaugsson

Elmar Ingi náði góðum árangri á Reykjavíkurmeistaramóti á árinu. Hann varð Reykjavíkurmeistari í tölti T3 í 1. flokki á hesti sínum Grunni frá Hólavatni og þá varð hann í 6. sæti í A-úrslitum í fjórgangi V2. Þá náði hann einnig góðum árangri á Suðurlandsmóti Geysis.

Áhugamannaflokkur konur – Henna Johanna Sirén

Henna Sirén náði mjög góðum árangri á mótum ársins. Hún varð Reykjavíkurmeistari í fimmgangi F2 á Hrönn frá Stóra-Múla, í 2. sæti í tölti T4 á Herjann frá Eylandi og 3. sæti í  fjórgangi V2 á Æsu frá Norður-Reykjum. Þá náði hún flottum árangri á íþróttamóti Geysis þar sem hún var í 1. sæti í tölti T4 og fimmgangi F2 ásamt öðrum flottum árangri.

Ungmennaflokkur karlar – Matthías Sigurðsson

Matthías átti frábært ár á keppnisbrautinni en hann varð fjórfaldur Reykjavíkurmeistari þar sem hann átti mjög góðan árangur í skeiðgreinum á Magneu frá Staðartungu. Á gæðingamóti Fáks varð Matthías og Tumi frá Jarðbrú efstir í ungmennaflokki og á Landsmóti fóru þeir efstir inn í milliriðil. Í milliriðli lentu þeir í B-úrslitum sem þeir unnu og fóru svo alla leið í A-úrslitum og urðu Landsmótssigurvegarar.

Matthías var valinn í U21 landslið Íslands sem fór á Norðurlandamót og urðu þeir Norðurlandameistarar í ungmennaflokki á  Gusti frá Stóra-Vatnsskarði  og í 2. sæti á Páfa frá Kjarri í fimmgangi F1. Þá átti Matthías einnig góðu gengi að fagna á Íslandsmóti. Á uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga var hann valinn efnilegasti knapi ársins.

Ungmennaflokkur konur – Eva Kærnested

Eva átti gott ár á keppnisbrautinni en hún varð Reykjavíkurmeistari í fjórgangi á hesti sínum Styrk frá Skák. Á gæðingamóti Fáks varð hún í öðru sæti í ungmennaflokki á Loga frá Lerkiholti. Á Landsmóti áttu þau Eva og Logi frábæra sýningu í forkeppni sem skilaði þeim 9. sæti, í milliriðli voru þau í 4. sæti og fóru beint í A-úrslit þar sem þau enduðu í 5. sæti í gríðarlega sterkum ungmennaflokki. Þá átti Eva góðu gengi að fagna í Meistaradeild Ungmenna og á Íþróttamóti Sleipnis.

Landsmótssigurvegarar og Íslandsmeistarar Fáks

Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ unnu A-flokk gæðinga í gríðarlega sterkum A-úrslitum og varð Álfamær þar með fyrst hryssna til að vinna A-flokk. Þá er Árni einnig Íslandsmeistari í tölti T1 á hryssunni Kastaníu frá Kvistum. Þá var Árni Björn Pálsson krýndur knapi ársins hjá Landssambandi Hestamannafélaga fyrir árangur sinn á árinu.

Sigurður Vignir Matthíasson og Safír frá Mosfellsbæ unnu B-flokk gæðinga í ekki síður sterkum A-úrslitum þar sem sjónarmun munaði á efstu keppendum. Á uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga var Sigurður valinn gæðingaknapi ársins.

Konráð Valur Sveinsson og hestar hans Kastor frá Garðshorni á Þelamörk og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu urðu þrefaldir Landsmótssigurvegarar þegar þeir unnu allar skeiðgreinar á Landsmóti: 100m flugskeið, 150m skeið og 250m skeið. Þá settu Konráð Valur og Kjarkur Íslandsmet í 150m skeiði á Reykjavíkurmóti og heimsmet í framhaldi á Íslandsmóti. Konráð er Íslandsmeistari í 150m og 100m skeiði.

Matthías Sigurðsson og Tumi frá Jarðbrú unnu Ungmennaflokk sannfærandi en þeir unnu sér sæti í A-úrslitum eftir að hafa unnið B-úrslit mótsins. Þá varð Matthías einnig Norðurlandameistari í ungmennaflokki gæðinga.

Knapi ársins 2024 – Árni Björn Pálsson

Texti af heimasíðu LH:

Árni Björn er fjölhæfur afreksknapi og var árangur hans á árinu 2024 ótrúlegur. Hæst ber að nefna sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti þar sem hann og Álfamær áttu frábærar sýningar en þau eru einnig í þriðja sæti á stöðulista í gæðingaskeiði. Átti Árni Björn einnig eftirminnilegar sýningar á Seðli frá Árbæ í A flokki. Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum, hlutu þau silfurverðlaun á Landsmóti í sömu grein og eru efst á WR listanum í þessari grein í ár. Hann náði góðum árangri á skeiðbrautinni á hestum sínum Ögra frá Horni og Þokka frá Varmalandi.

Árni Björn Pálsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hlýtur hann því nafnbótina Knapi ársins 2024.

Sjálfboðaliðar heiðraðir – Þorgrímur Hallgrímsson og Halldór Ólafsson

Frá vinstri: Jónína Björk Vilhjálmsdóttir, Sverrir Einarsson, Þorgrímur Hallgrímsson og Hjörtur Bergstað. Halldór átti ekki heimangengt á hátíðina

Á uppskeruhátíðinni var einnig Þorgrími Hallgrímssyni og Halldóri Ólafssyni þökkuð sjálfboðastörf þeirra fyrir Fák í gegnum tíðina. Hafa þeir verið boðnir og búnir við að bjóða fram krafta sína í þau verkefni sem vinna þarf fyrir Fák. Þá voru þeir ómissandi hluti af öflugum hópi sjálfboðaliða á Landsmóti í sumar. Takk fyrir ykkar framlag.

Frá vinstri: Jónína Björk Vilhjálmsdóttir formaður Spretts, Hjörtur Bergstað formaður Fáks og Einar Gíslason framkvæmdastjóri Fáks og Landsmóts 2024

Samstarf félaganna í kringum Landsmót í sumar tókst frábærlega og var mótið eitt hið glæsilegasta frá upphafi. Fákur og Sprettur eru tvö stærstu félögin innan Landssambands hestamanna og innan þeirra raða er gríðarlega reynslumikið fólk þegar kemur að mótahaldi eins og sást á Landsmóti í sumar.

Landsmót gekk fumlaust fyrir sig og ber því að þakka sjálfboðaliðum sem komu að uppsetningu mótssvæðisins og svo þeim sem unnu á mótinu við að veita framúrskarandi þjónustu við gesti og knapa mótsins.

Upp úr þessu samstafi var ákveðið að halda Uppskeruhátíðir félaganna saman sem gaf góða raun og hlökkum við til frekara samstarfs.