Námskeiðin eru með breyttu sniði frá fyrra formi, en núna er námskeiðunum hjá Hrafnhildi skipt í tvennt, annars vegar hringteymingar- og brokkspíruþjálfunarnámskeið þar sem lögð er áhersla á hringteymingarvinnu og hins vegar vinna við hendi námskeið, þar sem lögð er áhersla á vinnu á beisli til að auka skilning fyrir ábendingum þegar farið er í hnakkinn.
Hringteymingar- og brokkspíruþjálfun
Hringteymingarvinna eru frábær tilbreyting í þjálfun hestsins sem stuðlar að bættu jafnvægi, auknum sveigjanleika og réttri vöðvauppbyggingu. Farið verður í hvernig hægt er að notast við hringteymingarvinnu til þess að þjálfa auga knapans við að greina misstyrk og líkamsbeitingu hestsins, ná betri stjórn á yfirlínu og andlegu jafnvægi. Jafnframt hefur brokkspíru- og hindrunarstökksþjálfun fjölmarga ávinninga, s.s. að auka liðleika, styrk og samhæfingu. Slík þjálfun hvetur hestinn til þess að teygja á yfirlínunni, virkja kvið- og kjarnvöðva og hefur einnig jákvæð andleg áhrif þar sem hesturinn verður einbeittari, öruggari og jákvæðari.
Farið er í grunnatriði hringteymingarþjálfunar, notkun hringtaumsbúnaðar og í framhaldi af því í notkun á brokkspírum og litlum hindrunum.
Nemendur mæta með eigin hest og búnað á hestinn. Búnað sem þarf að koma með í fyrsta tíma er snúrumúll, vaður, hringtaumsmúll eða multibridle, reiðtaumur og reiðpískur. Hámark 3 nemendur í hverjum hóp.
Vinna við hendi
Farið verður í hvernig hægt er að notast við vinnu við hendi til að hjálpa hestinum að skilja grunnábendingar og að ná betri stjórn á yfirlínu og andlegu og líkamlegu jafnvægi. Grundvöllur árangurs er að hesturinn sé sáttur og skilji ábendingar knapans, hvort sem það er frá jörðu eða á baki.
Vinna við hendi hjálpar til við bæta samhæfingu þjálfarans og gefur honum færi á því að sjá hvernig hesturinn bregst við ábendingum og hreyfir fæturnar. Jafnframt hefur slík vinna afar jákvæð áhrif á samband manns og hests, eykur gagnkvæma virðingu og styrkir leiðtogahlutverkið. Farið verður í notkun fimiæfinga frá jörðu og hvaða ávinning þær hafa fyrir hestinn.
Nemendur mæta með eigin hest og búnað. Búnað sem þarf að koma með í fyrsta tíma er snúrumúll, vaður, beisli, reiðtaumur og reiðpískur. Hámark 5 nemendur saman í hverjum hóp.
Námskeiðin fara fram á miðvikudögum og eru 6 skipti frá 17. nóvember til og með 22. desember frá kl. 17-21.
Hringteymingar- og brokkspíruþjálfunar námskeiðið kostar 30.000 kr. og vinna við hendi námskeiðið kostar 18.500 kr.
Skráning á www.sportfengur.com