Í haust hefst 6 vikna reiðnámskeið fyrir börn og unglinga sem vilja æfa hestamennsku undir handleiðslu menntaðra reiðkennara. Kennt verður þrisvar í viku, en þar af eru tveir verklegir tímar (50mín) og einn opinn tími þar sem kennslan verður sveigjanlegri (bóklegt/reiðtúr/sýnikennsla/vettvangsferð eða önnur afþreying). Við leggjum mikla áherslu á að hver og einn nemandi fái kennslu við hæfi sem hentar getustigi og áhugasviði.
Á haustönn býðst nemendum að leigja pláss á kostnaðarverði í félagshesthúsi Fáks. Krakkarnir hafa mætt samviskusamlega upp í hesthús á hverjum degi og borið ábyrgð á því að sinna þeim verkum sem fylgja því að eiga/sjá um hesta. Þau sjá því sjálf um að segja út, vigta hey, raka til í stíum, bera undir, beita hestunum og ekki síst að rækta vinskap við hestinn sinn. Á þann hátt öðlast krakkarnir sjálfstæði í vinnubrögðum, ábyrgðarkennd og ekki síst skemmtilega upplifun þar sem þau fá tækifæri til að njóta hestamennskunnar með vinum sínum í sama hesthúsi.
Gert er ráð fyrir að nemendur mæti með sína eigin hesta, en reynt verður að hjálpa til við milligöngu um hesta til leigu fyrir nemendur sem ekki hafa aðgang að hesti.
Nánari upplýsingar í skráningarskjali <hér>.