Á heimasíðu LH er góð samantekt fyrir þá sem ætla að taka þátt í mótum í sumar.
Vakin er athygli á því að einungis þeir sem eru skráðir í Fák við starfsskýrsluskil þann 15. apríl geta öðlast þátttökurétt á Landsmóti í sumar.
Ef það leikur vafi á því hvort þú sért skráður í Hestamannafélagið Fák þá er hægt að athuga það með því að fara inn í Sportabler appið og athuga skráningu foreldris eða barns. Sjá skjáskot.
Einnig er hægt að senda póst á skraning@fakur.is og óska eftir staðfestingu á skráningu í Fáki.
Keppandi getur aðeins tekið þátt í mótum í nafni eins félags á einu keppnistímabili. Þ.e.a.s. keppandi getur bara keppt fyrir eitt félag á árinu.
Rétt er að fara einnig yfir reglur sem gilda varðandi íþróttakeppni og svo gæðingakeppni.
Í A- og B- flokki gæðinga í gæðingakeppni telst hesturinn sem keppandi á mótinu en ekki knapi hans. Það þýðir að eigandi hestsins þarf að vera skráður í það hestamannafélag sem hesturinn keppir fyrir og má ekki keppa fyrir annað félag á því keppnisári.
Í yngri flokkum gæðingakeppni er það knapinn sem keppir til móts við hestinn og því þarf knapinn að vera félagi í viðkomandi hestamannafélagi ásamt því að hesturinn er í eigu félagsmanns að hluta til eða öllu leyti.
Í íþróttakeppni er það knapinn sem er keppandi og þarf að vera skráður í félagið sem hann keppir fyrir, og eignarhald hestsins er ekki ráðandi þáttur þar.
Það er mikilvægt nú í upphafi keppnistímabils að knapar velji hvaða félag þeir keppa fyrir á árinu, og passa að skráningar á mót og deildir vetrarins séu réttar með það í huga að knapinn keppi einungis fyrir eitt félag yfir keppnisárið.
Deildirnar allar líkt og meistaradeild, 1. deild og æskulýðsdeildirnar meðal annars, sem eru í gangi yfir veturinn eru íþróttamót og hestur getur tekið þátt þar alveg óhindrað og farið í gæðingamót hjá sínu félagi, en knapi þarf að vera rétt skráður í Sportfeng og keppa fyrir sitt félag.
Gæðingamót Fáks – Landsmótsúrtaka verður haldið dagana 23.-26. maí með eftirfarandi hætti:
- Fimmtudagur 23. maí – Fyrri umferð, allir gæðingaflokkar.
- Föstudagur 24. maí – Tölt T1 og skeiðgreinar.
- Laugardagur 25. maí – Seinni umferð.
- Sunnudagur 26. maí – Úrslit: Árangur úr fyrri umferð gildir til úrslita.