Uppskeruhátíð æskulýðsdeildar Fáks var haldin s.l. fimmtudagskvöld í veislusal TM Reiðhallarinnar í Víðidal. Hátt í hundrað börn og unglingar, foreldrar, ömmur og afar mættu. Kvöldið hófst á því að hinn frækni Fáksmaður Sigurður Vignir Matthíasson sagði frá sinni hestamennsku allt frá því að hann hóf sinn feril sem sjö ára gutti, þar sem hann fékk að fara á hestbak gegn því að moka og kemba fyrir tamningamenn í dalnum. Það var mjög skemmtilegt að hlusta á Sigga fara yfir sinn glæsta feril og fengu gestir kvöldsins að heyra margar góðar sögur. Því næst reiddi æskulýðsnefndin fram pizzuveislu og með því. Hjörtur Bergstað formaður Fáks afhenti börnunum svo viðurkenningu fyrir þátttöku sína í starfi Fáks árið 2017 með hvatningu um að stunda hestamennskuna af krafti áfram.

Íþróttamenn Fáks 2017 í barna og unglingaflokki voru verðlaunaðir, ein stúlka og einn drengur í hvorum flokki. Í barnaflokki voru það Eygló Hildur Ásgeirsdóttir og Matthías Sigurðsson og í unglingaflokki voru það Ylfa Guðrún Svafarsdóttir og Hákon Dan Ólafsson.

Kvöldið endaði svo með því að rapparinn Chase steig á svið ásamt tveimur félögum sínum og krakkarnir tóku vel undir. Þau voru öll sammála um að ,,njodda og livva“.