Undanfarnar vikur hefur fræðslunefnd Fáks unnið að því að skipuleggja námskeiðahald vetursins og nú eru línur  farnar að skýrast. Boðið verður upp á fjölbreytt og fræðandi námskeið af ýmsum toga. Vonandi finna sem flestir eitthvað við sitt hæfi. Í ár mun öll skráning fara fram í gegnum Sportfeng, þ.e. greiða verður námskeiðsgjald strax við skráningu. Skráning í Sportfeng mun opna á næstu dögum og fyrstu námskeiðin hefjast strax í janúar.

Dagskrá vetrarins er eftirfarandi:

  • Sölvi Sigurðarson mun kenna einkatíma á þriðjudögum og miðvikudögum.
  • Sigrún Sigurðardóttir og Henna Siren munu kenna á þriðjudögum frá 1. febrúar.
  • Róbert Petersen mun kenna einkatíma á mánudögum og paratíma á miðvikudögum.
  • Töltslaufurnar munu þeysa um höllina á fimmtudögum.
  • Anna S. Valdimarsdóttir og Friðfinnur Hilmarsson munu kenna einkatíma á fimmtudögum.
  • Magnús Lárusson mun kenna einkatíma á föstudögum.
  • Þá mun Johann Haggberg heimsmeistari halda helgarnámskeið í reiðhöllinni 10.-11. janúar 2020.

Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir halda utan um allt barna- og unglingastarf vetrarins. Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir mun hafa yfirumsjón með undirbúningi fyrir Landsmót í yngri flokkum og fá til liðs við sig margreynda keppnisknapa og þjálfara. Þá fá þeir sem hafa verið ötulir að starfa fyrir félagið og í nefndum þess óvæntan kennsluglaðning.

Fræðslunefnd Fáks verður einnig í samstarfi við fræðslunefnd Spretts í vetur og er áætlað að halda fjóra kennslufyrirlestra fyrir félaga. Fyrsti fyrirlesarinn verður Hinrik Þór Sigurðsson reiðkennari sem mun flytja erindi um mikilvægi markmiðasetningar og hugarþjálfunar, eitthvað sem er mjög mikilvægt fyrir hestamenn á Landsmótsári. Fyrirlesturinn hans Hinriks Þórs mun fara fram í salnum í Reiðhöllinni í Víðidal fimmtudaginn 16. janúar næstkomandi klukkan 20.

Ennfremur er stefnt að því að skipuleggja fleiri námskeið og helgarnámskeið. Fræðslunefnd tekur öllum hugmyndum fagnandi á netfanginu fraedslunefnd@fakur.is Þannig að ekki missa af öflugu starfi fræðslunefndar í vetur.