Ágætu hestamenn, það styttist í hina árlegu skírdagsreið hestamanna á höfuðborgarsvæðinu sem að þessu sinni er 18. apríl. Þá ríða hestamenn úr Fáki, Herði, og Spretti til Sörla í Hafnarfirði, hittast og gera sér glaðan dag yfir svignandi hlaðborðum Sörlakvenna.

Sörlafélagar ríða á móti gestum og í ár verður riðið um Heiðmörk og verður mæst við Gjárétt. Hlaðborðið verður í Sörlastöðum og opnar húsið klukkan 14:00.

Athygli er vakinn á ástandi reiðvegar um Urriðaholt meðfram Elliðavatnsvegi ( Flóttamannavegi ). Þar hafa verið miklar framkvæmdir undanfarið við frárennslislagnir, gatnagerð ofl. Mikil hætta getur skapast við þær aðstæður sem þar eru, 1/2 – 1 mtr. í 2 – 4 mtr. djúpa skurði og á um 300 mtr. kafla hefur efni verið tippað á reiðveginn þannig að breidd á honum þar er rétt um 1/2 mtr. eða rétt bara sem sporaslóð og útilokað að mætast þar. Það segir sig sjálft að af þessu er mikil slysahætta því á hina höndina er blússandi bílaumferð á 70 – 90 km hraða. Það þarf ekki mikið útaf að bregða svo að illa geti farið.

Þó svo að bæjarverkfræðingur Garðabæjar hafi gefið það út að engin vinna verði á Urriðaholtinu á skírdag þá eru hestamenn hvattir til að ríða um Heiðmörkina til og frá Hafnarfirði á skírdag. Reiðvegir þar eru í góðu standi eftir veturinn.