Hin árlega sýning Æskan og hesturinn verður haldin laugardaginn 29. apríl næstkomandi í TM-Reiðhöllinni í Víðidal. Þar koma fram efnilegustu hestamenn landsins og sýna afrakstur vetrarstarfsins og er óhætt að segja að sýningin sé hápunktur vetrarstarfsins hjá hinum ungu knöpum.

Hópar ungra hestamanna frá öllum hestamannafélögunum á höfuðborgarsvæðinu; Fáki, Herði, Spretti og Sörla sýna fjölbreytt atriði sem þeir hafa æft í hverju félagi fyrir sig. Sýningarnar verða tvær; kl. 13:00 og 16:00. Teymdir og ríðandi pollar eigi að mæta korteri fyrir hvora sýningu í búningum sínum.

Súsanna Sand, formaður Félags tamningamanna, setur sýninguna og auk hinna fjölmörgu glæsilegu atriða sem börnin sýna munu Eurovisionstjörnurnar Hildur Kristín Stefánsdóttir og Aron Hannes Emilsson flytja nokkur lög. Að sýningu lokinni verður börnum boðið á hestbak í gerðinu hjá Reiðskóla Reykjavíkur.

Frítt er inn á sýninguna á meðan húsrúm leyfir.