Það verður margt um manninn í Reiðhöllinni Víðidal í kvöld þegar Stórsýning Fáks fer fram. Þetta er jafnframt 30 ára afmæli Reiðhallarinnar og Fákur verður 95 ára 24. apríl.

Landsmótssigurvegararnir Konsert frá Hofi og Forkur frá Breiðabólstað munu dansa um gólfið í kvöld með knöpum sínum.

Glæsileg ræktunarbú munu koma fram frá Hamarsey, Dallandi, Vakurstöðum og Ljósafossi, glæsilegar systur úr Austurási, feðginin Sigurbjörn og Sara, gæðingar, hátt dæmd kynbótahross og margt fleira sem mun gleðja augað.

Eldhugar verða með glæsilega skeiðsýningu og lofa þeir því að enginn sprettur klikki í kvöld.

Hver man ekki eftir mögnuðu ljósaatriði unglinganna í Fáki á síðustu sýningu, sami hópur hefur verið við stífar æfingar á nýju atriði sem verður frumsýnt í kvöld.

Kjarnakonur er félagsskapur kvenna í Fáki sem hefur það að markmiði að efla reiðmennsku, njóta samveru fólks með sama áhugamál og efla félagsleg tengsl á Fákssvæðinu og munu þær koma fram í kvöld.

Miðasala er enn í fullum gangi og verður hún opin í dag frá kl 14:00-16:00 og svo verða seldir miðar við innganginn þar til selst upp.

Fagmannlegar sýningar, góð reiðmennska, ljós og glæsilegt undirspil mun einkenna sýninguna.

Sýningin hefst kl 21:00 og mætir Hamborgarabúllan á svæðið klukkan 20:00.