Stjórn Fáks veitti Ragnari Vinsent Petersen gullmerki félagsins í síðustu viku. Ragnar hefur starfað mikið fyrir félagið í gengum tíðina og má með sanni segja að hann sé faðir töltslaufureiðanna sem útfærðar eru á öllum reiðhallarsýningum. Ragnar hefur einkar næmt auga fyrir fögrum útfærslum þegar kemur að sýningum og hefur hann þjálfað margan knapann sem hafa leikið listir sínar hér í Reiðhöllinni og víðar. Djúp og seiðandi rödd Ragga hefur einnig ósjaldan heyrst á hestamótum er hann þuldi og stjórnaði af röggsemd stórum mótum hér í Fáki svo vel fór.

Ekki má heldur gleyma því að Raggi er einnig fyrirmynd þegar kemur að snyrtimennsku, hvort sem er í kringum sjálfan sig eða á hestum. Félagarnir Raggi og hinn leirljósi Stelkur voru einkar glæsilegir saman, háreistir, flottir og hágengir er þeir svifu um reiðgöturnar hér í Fáki eða æfðu fet og hinar ýmsu hlýðniæfingar í gerðinu.

Til hamingju Ragnar með gullmerkið og við þökkum fyrir þín störf í þágu félagsins í gegnum tíðina.