Uppskeruhátíð Fáks fór fram í hátíðarsal Fáks TM-Reiðhöllinni í desember þar sem afreksknapar félagsins voru heiðraðir, félagsmálatröll félagsins var kjörið og viðurkenning veitt fyrir hæst dæmda kynbótahrossið ræktað af og í eigu félagsmanns. Hinrik Ólafsson sá um veislustjórn af sinni alkunnu snilld.
Félagsmálatröll Fáks var kjörin Hilda Karen Garðarsdóttir, fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Hæst dæmda kynbótahrossið ræktað af og í eigu félagsmanns er Glúmur frá Dallandi með 8,81 í aðaleinkunn, eigendur hans eru Gunnar og Þórdís í Dallandi.
Jón Finnur Hansson lét af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins á árinu eftir 10 ára starf hjá félaginu og var honum veittur þakklætisvottur fyrir góð störf í þágu félagsins.
Heimsmeistarar Fáks voru heiðraðir þeir Gústaf Ásgeir Hinriksson, Konráð Valur Sveinsson og Sigurður Vignir Matthíasson. Einnig voru Íslandsmeistarar Fáks heiðruð þau Birta Ingadóttir, Konráð Valur Sveinsson, Gústaf Ásgeir Hinriksson og Teitur Árnason.
- Ungmennaknapar Fáks 2017 voru kjörin þau Birta Ingadóttir og Konráð Valur Sveinsson
- Knapar Fáks 2017 í Áhugamannaflokki voru kjörin þau Saga Steinþórsdóttir og Þorvarður Friðbjörnsson
- Hestaíþróttakarl og kona Fáks 2017 voru kjörin þau Hulda Gústafsdóttir og Teitur Árnason
Óskum við þessum einstaklingum til hamingju með frábæran árangur á árinu og þökkum öllum er komu að starfi Fáks fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.