Eftir frábæra viku á landsmóti hestamanna er gaman líta yfir farinn veg. Stór hópur ungra Fáksmanna tóku þátt. Alls voru 40 knapar sem kepptu fyrir hönd félagsins í yngri flokkum og stóðu þau sig öll með stakri prýði og voru félaginu til mikils sóma. Það var einstaklega skemmtilegt og gefandi að fylgjast með þessum fyrirmyndar hóp í þessari feikna sterku keppni sem nú er yfirstaðin.

Í barnaflokki áttum við fimm fulltrúa í milliriðlum en það voru Alexander Þór Hjaltason,

Helga Rún Sigurðardóttir, Hrafnar Freyr Leósson, Valdís Mist Eyjólfsdóttir og Viktor Leifsson.

Hrafnar Freyr Leósson og Heiðar frá Álfhólum höfnuðu í 12. sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,49. Viktor Leifsson og Glaður frá Mykjunesi 2 höfnuðu í 10.sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,53.

 

Í unglingaflokki áttum við fimm fulltrúa í milliriðlum en það voru Lilja Rún Sigurjónsdóttir, Sigurbjörg Helgadóttir, Gabríel Liljendal Friðfinnsson, Ragnar Snær Viðarsson og Hrefna Kristín Ómarsdóttir. Sigurbjörg Helgadóttir og Elva frá Auðsholtshjáleigu höfnuðu í 10. sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,69, Gabríel Liljendal Friðfinnsson og Ólsen frá Egilsá höfnuðu í 12. sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,61 og Lilja Rún Sigurjónsdóttir og Sigð frá Syðri-Gegnishólum höfnuðu í 15. sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,53.

 

Í B-flokki ungmenna áttum við þrjá fulltrúa í milliriðlum en það voru Matthías Sigurðsson, Eva Kærnested og Anna Sager en þau komust öll upp í úrslit. Anna Sager og Sesar frá Rauðalæk riðu sig upp í B-úrslit og höfnuðu þar í 10.sæti með einkunnina 8,65. Eva Kærnested og Logi frá Lerkiholti flugu beint inn í A-úrslitin eftir milliriðla þar sem þau síðan höfnuðu í 5.sæti með einkunnina 8,62. Matthías Sigurðsson og Tumi frá Jarðbrú unnu B-úrslit með einkunina 9,09. Þeir félagar hættu ekki þar og gerðu sér lítið fyrir og unnu A-úrslitin með glæsi einkunnina 9,03. Matthías fékk einnig þá heiðurs viðurkenningu að vera valinn handhafi  Öders-bikarsins en það eru verðlaun sem veitt eru þeim sem sýna fagmannlega og góða reiðmennsku. Hann er vel að þessari viðurkenningu kominn.

Fákur vill nýta tækifærið og óska öllum knöpum til hamingju með frábæran árangur á nýliðnu landsmóti. Framtíðin er heldur betur björt!