Hestamannafélagið Sprettur heldur Íslandsmót í hestaíþróttum 2018 á félagssvæði Hestamannafélagsins Fáks.

Hestamannafélagið Fákur hefur boðið Hestamannafélaginu Spretti afnot af landsmótsvæði sínu í Víðidal fyrir Íslandsmót allra flokka, daganna 18. – 22. júlí nk. sem Spretti var úthlutað á Landsþingi hestamanna sl. haust.

Sprettur hefur ákveðið að þiggja þetta góða boð og mun Sprettur því halda Íslandsmót 2018 á stórglæsilegu félagssvæði Fáks.

Ljóst er að mjög vel hefur til tekist með uppbyggingu á svæðinu, sem er allt hið glæsilegasta og því vel við hæfi að Íslandsmót okkar hestamanna fari þar fram.

Stefna forsvarsmenn Spretts og Fáks að enn öflugra samstarfi þessara tveggja stærstu hestamannafélaga landsins á komandi misserum.