Á nýafstöðnu Landsmóti heiðruðu Hestamannafélagið Fákur og Landssamband Hestamannafélaga tvo heiðursmenn, þá Erling Ó Sigurðsson og Ragnar Hinriksson. En þeir eru báðir hestamönnum vel kunnugir og hafa verið viðloðnir hestamennsku frá blautu barnsbeini og hafa unnið til margra verðlauna innan hestamennskunnar ásamt því að hafa miðlað af reynslu sinni til annarra í áranna rás.

Innilega til hamingju kæru félagar og takk fyrir ykkar framlag til hestamennskunnar.

 

  • Ragnar Hinriksson er fæddur í Reykjavík 1950.

Snemma hneigðist hann að hestum og svo mikill var áhuginn að hann hljóp á eftir hestamönnum svo sem eins og Sigga Óla, pabba Erlings, alla leið úr Laugardalnum og langleiðina upp að Geithálsi, bara til þess eins að fá að halda í hestana fyrir þá og kannski líka til að fá að tylla sér á þá í bakaleiðinni.

Ragnar var í sveit á sumrin, m.a. á Þorgilsstöðum í Hvítársíðu. Eitt sumarið tamdi hann fola á bænum og fékk hann að launum í sumarlok. Þetta var Asi sem varð svo vel þekktur með pabba Ragnars, Hinriks Ragnarssonar.

Hann lauk búfræðinámi á Hvanneyri og hlaut þar Skeifuverðlaunin eftirsóttu. Hann starfaði síðan við tamningar um allt land. Þeir segja gárungarnir á kynbótabrautinni að ef Raggi hafi ekki tamið ömmu hrossins í braut þá hafi hann örugglega tamið langömmu þess. Hann tamdi m.a. heiðursverðlauna hryssurnar Nótt frá Kröggólfsstöðum og Fúgu frá Sveinatungu. Einnig tamdi hann og sýndi Gust frá Sauðárkróki eða Höfða-Gust svokallaðan en hann er ættfaðir allmargra kynbótahrossa í dag.

Hjá Ragnari hafa starfað margir af þekktustu knöpum landsins og er gaman að geta þess að nýkrýndur Landsmótssigurvegari í 250m skeiði og heimsmethafi, hefur unnið hjá Ragnari.
Ragnar á fjölmarga Landsmóts- og Íslandsmótstitla í skeiði. En einn af hans stærstu titlum er þegar hann varð Evrópumeistari eins og það hét þá en heitir nú Heimsmeistaramót. Þetta var árið 1979 í Hollandi. Þá veiktust allir hestarnir í íslensku sveitinni og knaparnir þurftu að fá lánaða hesta frá nágrannaþjóðunum. Í hlut Ragnars kom hesturinn Fróði frá Ásgeirsbrekku. Hann hafði verið ansi baldinn þar úti. Það varð því mikið ævintýri þegar Ragnar stóð uppi sem Evrópumeistari í samanlögðum greinum á honum.

Ragnar er giftur Helgu Claessen. Það má segja að ef Raggi væri stóðhestur þá væri hann ágætur til undaneldis en hann á 3 mannvænleg börn sem öll eru föðurbetrungar að hans sögn. Það er öll fjölskyldan í hestamennsku eða viðloðin hana og meðal annars kepptu 2 barnabörn hans hér á þessu Landsmóti og fóru þeir báðir í úrslit.

  • Erling Ó Sigurðsson hefur stundað hestamennsku í 70 ár.

Á Landbúnaðarsýningunni í Reykjavík 1948 var hann knapi og sýnandi á Snigli hestur sem faðir hans þjálfaði í ýmsum sirkusæfingum. Erling sýndi listir á þessum hesti fyrir Fák á kappreiðum frá 6 ára aldri.

Hann hefur keppt í skeiði frá 1973 til dagsins í dag 2018.

Uppáhalds skeiðhestar hans eru þeir: Vafi frá Hofstöðum, Vani frá Stóru Laugum, Frami frá Kirkjubæ, Þróttur frá Tunguhálsi og Hnikar frá Ytra-Dalsgerði ásamt mörgum öðrum góðum skeiðhestum.

1981 – 1985 varð hann 3 sinnum Íslansmeistari à Hannibal frá Stóra-Hofi í ólympískri tvíkeppni. (Sem eru hindrunarstökk og hlíðniæfingar). Á Íslandsmót í Skagafirði 1985 varð hann samanlagður sigurvegari og því Íslandsmeistari. Hann tók þátt í Evrópumótinu í Ausurríki 1987 þá á Þrim frá Brimnesi  í Skagafirði.  Hann varð annar í gæðingaskeiði og þriðji í 250 m skeiði.

Erling er búinn að vera reiðkennari í 40 ár en hann er með B reiðkennararéttindi frá FT.

Hann varð Reykjavíkurmeistari í gæðingaskeiði 2018 þá 76 ára.