Námskeiðahald verður með fjölbreyttu sniði í vetur. Reynt verður að koma til móts við sem flesta og hafa fjölbreytt úrval af námskeiðum en jafnframt að hafa TM-Reiðhöllina eins mikið opna fyrir alla aðra sem eru að þjálfa sig og sína hesta. Til að byrja með í janúar a.m.k. þá verður t.d. TM-Reiðhöllin öll opin til kl. 19:00 þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga (ekki námskeið í gangi).

Boðið verður upp á eftirfarandi námskeið í vetur en þau verða auglýst nánar betur þegar nær dregur og skráning á þau.

Knapamerki – öll stig (1-5) ef næg þátttaka næsta. Þau hefjast upp úr miðjum febrúar. Þeir sem hafa hug á að taka knapamerkjanámskeið eru vinsamlega beðnir á að senda póst á fakur@fakur.is sem fyrst.

Teitur Árnason verður með reiðnámskeið í vetur. Hefst það í byrjun janúar, námskeiðin eru tvö (jan/febr og mars/apríl) og standa fram að Reykjavíkurmóti í maí. Áhersla er lögð á einstaklingskennslu en tveir nemendur verða í tíma í 45 mín. í senn. Námskeiðin verða  á mánudögum frá kl. 16:00 – 22:00

Róbert Petersen verður með reiðnámskeið þar sem áhersla er lögð á að vinna með knapa og hest með það að markmiði að bæta bæði. Róbert kennir á þriðjudagskvöldum frá kl. 19:00 – 22:00

Friðfinnur og Anna verða með námskeið þar sem lögð er áhersla á einstaklingskennslu. Einkatímar og kennt er í hálftími í senn og verða þau á föstudögum frá kl. 15:00 – 19:00

Heldri Fáksmenn verða með hóp og mun Sigrún Sigurðardóttir kenna þeim. Fjórir eru í hóp og hefst kennslan í byrjun mars.

Námskeið fyrir lítið vana og þá sem þurfa að styrkja sjálfsstraustið á hestbaki verður að sjálfssögðu boðið upp á. Sigrún Sigurðardóttir verður með þau og verða þau til að byrja með á laugardagsmorgnum.

Keppnisnámskeið fyrir börn, unglinga og ungmenni verða í vetur þar sem stefnt er að fylgja þeim eftir sem stefna á Landsmót eða Íslandsmót. Reynsluboltinn Sigurbjörn Bárðarson mun verða aðalkennari enda ekki hægt að fá reynslumeiri kennara eða keppnismann en hann er einnig dómari svo hann getur sinnt öllum þáttum námskeiðsins ef þyrfti. Sigurbjörn mun þó fá með sér hina ýmsu sérfræðinga til að leiðbeina þessu efnilega keppnisfólki bæði innan  vallar sem utan og halda utanum hópinn á mótunum. Námskeiðið hefst í byrjun febrúar.

Sylvía Sigurbjörnsdóttir mun kenna á laugardagsmorgnum og hefjast þau námskeið í byrjun febrúar (8 skipti).

Stefnt er að því að bjóða upp á eitt helgarnámskeið með “frægum” reiðkennara í mars en það er ekki alveg ljóst ennþá og verður auglýst síðar.

Einnig er hægt að skipuleggja námskeið fyrir litla eða stóra hópa ef áhugi er fyrir hendi. Um að gera að hafa samband við okkur um hverning námskeið þið viljið hafa og óskir um reiðkennara. 🙂