Góðir Fáksfélagar

Nú líður að jólum og eitt árið enn í sögu félagsins er senn á enda. Árið 2020 er um margt óvenjulegt, veira hefur herjað á okkur og höfum við þurft að breyta mörgum áætlunum okkar.

Við höfum þurft að sleppa viðburðum, mótum, hestaferðum og margvíslegum öðrum hlutum sem okkur hefur þótt sjálfsagðir til þessa. Við getum þó huggað okkur við það að við höfum getað notið návista við okkar besta vin og félaga; hestinn.

En þó margir viðburðir hafi fallið niður náðum við að halda Reykjavíkurmeistaramót sem var stærsta hestaíþróttamót sem haldið hefur verið. Langar mig að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu okkur við mótið kærlega fyrir því án dyggrar aðstoðar þeirra væri ekki hægt að halda mót af slíkri stærðargráðu.

Einnig var árangur keppnisfólksins góður á árinu nú sem fyrr og má þar sérstaklega nefna Konráð Val og Árna Björn, en þeim voru veittar sérstakar viðurkenningar af LH fyrir afrek sín á árinu

Ekki minni afrek unnu reiðvegnefnd og fræðslunefnd Fáks svo dæmi séu tekin en þær nefndir hafa unnið frábært starf á árinu eins og svo margir aðrir.

Ef allir gera það sem þeir geta í félagstarfinu áorkum við meiru og félagið okkar verður öflugra.

Vonandi eru bjartari tímar framundan nú þegar nýtt ár er handan við hornið og daginn fer að lengja aftur.

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári,

Hjörtur Bergstað