Árið hefur verið annasamt og nýtt til að leggja sterkari grunn að enn öflugra félagi. Stjórn félagsins vinnur að því að félagið verði að fyrirmyndarfélagi ÍSÍ. Sú vinna felur í sér að settur er rammi utan um starfsemina og félagið þarf að uppfylla ákveðnar gæðakröfur til að verða viðurkennt sem fyrirmyndarfélag. Félagsmenn ættu að hafa orðið varir við þessa vinnu en félagið hefur t.a.m. sett sér siðareglur, umhverfisstefnu, persónuverndarstefnu, forvarnarstefnu, viðbragðsáætlun við ofbeldi og einelti, staðfest hegðunarviðmið ÍSÍ o.s.frv. Enn er ýmislegt eftir, eins og t.d. stefnumótunarvinna félagsins sem stefnt er að fljótlega á nýju ári og vonast stjórn eftir góðum viðbrögðum félagsmanna um að leggja hönd á plóg í þeirri vinnu. Stefnt er að því að senda handbók félagsins fyrir dóm ÍSÍ á vordögum 2026.
Í byrjun sumars sendi stjórn bréf til starfshóps Reykjavíkurborgar um forgangsröðun íþróttamannvirkja um forgangsröðun mannvirkja á athafnasvæðum félagsins. Starfshópurinn er að störfum og er niðurstöðu að vænta fljótlega. Í haust barst félaginu svo góður liðsauki þegar borgarfulltrúar Framsóknaflokksins komu í heimsókn og kynntu sér starfsemi félagsins. Í kjölfarið lögðu þau fram tillögu fyrir borgarstjórn Reykjavíkur um að stofnaður verði starfshópur á vegum borgarinnar sem á að vinna að stefnumótun um hestamennsku í Reykjavík. Bíðum við eftir því að þessi starfshópur hefji störf en af nægu er að taka af verkefnum fyrir þennan starfshóp.
Við horfum björtum augum á verkefnin sem eru fram undan á næsta ári. Við þurfum öll að taka höndum saman um að efla félagsandann í félaginu. Við höldum ótrauð áfram við að tala máli félagsins innan borgarkerfisins og erum viss um að það muni hjálpa okkur í þeirri vinnu þegar félagið verður orðið fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Stjórn hestamannafélagsins Fáks sendir félagsmönnum hugheilar jóla og nýárskeðjur og þakkar samstarfið á árinu.