Uppskeruhátíð Fáks fór fram þann  31. október síðastliðinn þar sem voru verðlaunaðir knapar sem náð hafa framúrskarandi árangri á árinu. Árangur Fáksfélaga á árinu var glæsilegur og átti félagið fjóra fulltrúa í landsliði Íslands í hestaíþróttum en það voru Árni Björn Pálsson, Hinrik Bragason, Lilja Rún Sigurjónsdóttir og Matthías Sigurðsson.

Reykjavíkurmeistaramótið fór í sögubækurnar í sumar en það var stærsta hestaíþróttamót sögunnar með 1027 skráningum. Mótið er fyrir löngu búið að festa sig í sessi sem eitt af kjölfestumótum keppnistímabilsins. Stór hópur sjálfboðaliða hefur gefið vinnu sína og fannst stjórn því við hæfi að heiðra mótanefndina fyrir sitt ómetanlega framlag til félagsins í gegnum árin. Viðurkenninguna hlutu Aníta Lára Ólafsdóttir, Elín Hulda Halldórsdóttir og Sæmundur Ólafsson.

Sæmundur Ólafsson, Aníta Lára Ólafsdóttir og Elín Hulda Halldórsdóttir

Meðfylgjandi eru þeir knapar sem voru heiðraðir fyrir framúrskarandi keppnisárangur á árinu 2025.

Íþróttakarl og knapi Fáks – Árni Björn Pálsson 

Árangur Árna á árinu var frábær og bætti hann enn einni skrautfjöðurinni í safnið er hann varð heimsmeistari í tölti T1 á henni Kastaníu frá Kvistum á heimsmeistaramótinu í Sviss. Hann var Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Álfamær frá Prestsbæ og var hann í fremstu röð í öðrum greinum Íslandsmótsins.

Árni Björn er einnig útnefndur sem knapi Fáks 2025. Árni Björn er fjölhæfur afreksknapi hvort sem litið er til íþrótta- eða gæðingagreina og einnig er hann afkastamikill kynbótaknapi. Hann hefur tamið sér prúðmannlega og faglega framkomu jafnt í orði sem í verki og er Fáksfélögum sönn fyrirmynd og er sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn.

Íþróttakona Fáks – Hrefna María Ómarsdóttir

Hrefna átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni í sumar. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hún tvöfaldur Reykjavíkurmeistari, í fjórgangi V2 á Stormfaxa frá Álfhólum og í tölti T3 á Kopar frá Álfhólum. Þá átti hún einnig góðu gengi að fagna  í öðrum greinum.

Áhugamannaflokkur karlar – Guðmundur Ásgeir Björnsson 

Guðmundur var öflugur á keppnisbrautinni í ár. Hann var í fjórða sæti á A-flokki á sameiginlegu gæðingamóti Fáks og Spretts og í öðru sæti í B-flokki áhugamanna. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hann Reykjavíkurmeistari í fjórgangi V2 á Skildi frá Stóru-Mástungu 2 og einnig í gæðingaskeiði. Þá var hann í efstu sætum á Suðurlandsmóti og skeiðleikum Geysis.

Áhugamannaflokkur konur – Hrafnhildur Jónsdóttir 

Hrafnhildur er eljusamur knapi og endurspeglaðist það í árangri hennar á árinu. Hún átti góðu gengi að fagna á Reykjavíkurmeistaramótinu og á Áhugamannamóti Íslands varð hún í fyrsta sæti í slaktaumatölti T4 á Vin frá Sauðárkórki og var hún í 4. sæti í tölti T3, fjórgangi V2 og fimmgangi F2. Þá vann hún slaktaumatölt T4 og fjórgang F2 á Íþróttamóti Dreyra.

Ungmennaflokkur karlar – Matthías Sigurðsson

Matthías náði mögnuðum árangri á árinu og var hann valinn í ungmennahóp landsliðsins í hestaíþróttum sem keppti á heimsmeistaramótinu í Sviss. Þar keppti hann í gæðingaskeiði og 250m skeiði á Magneu frá Staðartungu. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hann Reykjavíkurmeistari í tölti T1, fimmgangi F1, 250m skeiði, gæðingaskeiði og flugskeiði. Þá var hann með efstu knöpum á Íslandsmóti í gæðingaskeiði og fimmgangi ásamt því að ná góðum árangri í öðrum greinum.

Ungmennaflokkur konur – Eva Kærnested

Eva átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni í ár og náði góðum árangri á Reykjavíkurmeistaramóti félagsins. Á Íslandsmóti varð hún í 5. sæti í tölti T1 á Loga frá Lerkiholti og 7. sæti í fjórgangi V1 á Styrk frá Skák. Í meistaradeild ungmenna varð hún í 2. sæti í tölti T1 og átti hún einnig góðan árangur á öðrum mótum.