Landsmót hestamanna var einstaklega vel heppnað á félagssvæði okkar Fáksfélaga. Mótið var hið glæsilegasta þar sem allt var eins og best verður á kosið, hestakosturinn frábær og með þeim sterkari sem sést hefur á Landsmótum. Veðurguðirnir spiluðu því miður ekki með okkur á mótinu en hörðustu áhugamenn um íslenska hestinn létu það ekki á sig fá og var hátt á níunda þúsund gesta á svæðinu, þegar mest var á svæðinu á laugardagskvöldinu.
Fáksfélagar stóðu sig einstaklega vel á mótinu og áttum við sterka fulltrúa í öllum úrslitum mótsins og tryggðu Fáksfélagar sér sigur í 5 greinum á mótinu eins og sjá má hér að neðan.
- Hafsteinn frá Vakurstöðum, Teitur Árnason – A-flokkur
- Árni Björn Pálsson, Ljúfur frá Torfunesi – Tölt
- Árni Björn Pálsson, Korka frá Steinnesi – 150m skeið
- Konráð Valur Sveinsson, Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II – 250m skeið á nýju heimsmeti 21,15 sekúndur
- Konráð Valur Sveinsson, Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II – 100m skeið
Stjórn Fáks vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg fyrir öflugt og fórnfúst starf í þágu félagsins og jafnframt óska áðurnefndum sigurvegurum innilega til hamingju með glæsilegan árangur á mótinu sem og öllum þeim keppendum sem tóku þátt í mótinu fyrir hönd félagsins.