Á Uppskeruhátíð Landssambands Hestamanna sem fram fór 18. nóvember síðastliðinn hlaut Sigrún Sigurðardóttir Heiðursverðlaun LH vegna framlags hennar til hestamennskunnar frá unga aldri. Sigrún hefur komið víða við í félagsstörfum og við reiðkennslu á sínum langa og glæsilega ferli. Á heimasíðu Landssambansins er skemmtileg samantekt sem við fáum að láni og má lesa í heild sinni hér að neðan.
Helga Björg Helgadóttir var veitt Gullmerki LH á formannafundi Landssambands Hestamannafélaga sem fram fór sama dag. Helga er Fáksfélögum vel kunn enda unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir Fák og verið í fararbroddi æskulýðsmál hjá LH og FEIF. Samantekt LH má lesa í heild sinni hér að neðan.
Sæmundur Ólafsson var tilnefndur LH félagi ársins á Uppskeruhátíð LH en hann hefur verið óþreytandi undanfarin ár að sinna sjálfboðastörfum í kringum viðburði og mót félagsins. Samantekt LH má lesa í heild sinni hér að neðan.
Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með þessar viðurkenningar og þakkir fyrir þeirra framlag til félagsmála.
Sigrún Sigurðardóttir – Heiðursfélagi LH
Sigrún Sigurðardóttir er borgarbarn fædd með hestadellu.
Foreldrar hennar áttu hesta í Neðri-Fák og var hún mjög ung þegar hún yfirtók hesta foreldranna. Hún naut góðrar aðstoðar Gunnars Tryggva og Sigga hirðis í hestastússinnu, reið mikið út og tók þátt í félagsskap unga fólksins á svæðinu. Sigrún keppti fyrst á kappreiðum árið 1967 og vann þá á hestinum Geysi frá Garðsauka og var knapi á kappreiðum í allmörg næstu ár.
Hún giftist Erlingi A. Jónssyni og gerðist félagi í Hestamannafélaginu Gusti. Hún var þar mjög virk í öllum félagsmálum, sat í stjórn félagsins á tímabili, í fræðslunefnd, æskulýðsnefnd og fleiri nefndum. Einnig sá hún um æskulýðsmál félagsins í mörg ár. Hún var fyrsti formaður kvennadeildar Gusts og var kosinn félagsmálamaður Gusts.
Sigrún sat Landsþing sem fulltrúi Gusts í mörg og var virkust þar í keppnisnefnd. Sigrún hefur nú á seinni árum setið LH þing sem fulltrúi Fáks.
Hún átti sæti í varastjórn LH um tíma og sat einnig í milliþinganefndum, einnig sat hún í stjórn Hestaíþróttasambandsins á meðan það var og hét, og hún var í ritstjórn tímaritsins Hestsins Okkar á tímabili.
Sigrún vann á skrifstofu LH í kring um 1996 og fór meðal annars til Austurríkis á heimsmeistararmót. Þar sá hún um pappírsmál fyrir liðið og var í tímatökuliði mótsins fyrir Íslands hönd.
Sigrún tók gæðingadómarpróf í kringum 1971 og landsdómarapróf í framhaldi af því og var virkur dómari í mörg ár. Hún sat í stjórn dómarafélags LH um árabil og hefur einnig setið í fræðslunefnd gæðingadómarafélagsins. Sigrún hefur verið þulur á flestum Lands- og fjórðungsmótum frá 1971 auk fjölda annarra félagsmóta og mótaraða.
Sigrún var í nokkur ár formaður nefndar um Kvennatölt á skautasvellinu í Rvk. til styrktar landsliðinu í hestaíþróttum.
Sigrún var ein af upphafsmönnum sýningarinnar Æskan og hesturinn og tók þátt í þeim sýningum í mörg ár, bæði sem þulur og sem þjálfari sýnenda.
Sigrún hefur unnið með flestum Æskulýðsnefndum hestamannafélaga á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Hún sá um ásamt fleirum að skipuleggja og koma á fót Æskulýðsmóti á Þingvöllum. Farið var ríðandi með hóp unglinga til Þingvalla, þar sem fjölbreytt námskeið og reiðtúrar voru í boði og gist var tvær nætur.
Síðast enn ekki síst hefur Sigrún starfað við reiðkennslu í yfir 50 ár, bæði hér heima og erlendis og vandfundinn sá knapi sem stundar hestamennsku í dag á aldrinum 10-50 ára sem ekki hefur farið í kennslu til hennar.
Hún hefur verið virkur þátttakandi í uppbyggingu knapamerkja frá upphafi, bæði sem kennari og dómari. Hefur einnig haldið námskeið fyrir verðandi þuli. Reiðámskeiðin hafa verið fjölbreytt m.a. barna- og unglinganámskeið auk námskeiða fyrir óörugga sem nefnd hafa verið „hræðslupúkanámskeið“ auka annarra almennra reiðnámskeiða.
Hún fór til Bretlands og lærði þar þjálfun/kennslu fatlaðra, starfaði svo í samstarfi við sjúkraþjálfara á Fákssvæðinu.
Sigrún Sigurðardóttir hefur á æviskeiði sínu unnið þrekvirki þegar kemur að nýliðunar- og útbreiðslumálum hestamanna ásamt því að vera óþreytandi við að aðstoða hrætt hestafólk við að komast aftur í hnakkinn.
Hún hlaut gullmerki LH 2014 á Selfossi
Helga Björg Helgadóttir – Gullmerki LH
Helgu þarf vart að kynna. Helga Björg hefur til fjölda ára unnið óeigingjarnt starf í þágu æskulýðsmála og verið óþreytandi að halda mikilvægi öflugs æskulýðsstarfs á lofti.
Helga hefur verið í ýmsum stjórnum og tekið virkan þátt í starfi Fáks. Hún var í kvennadeild Fáks og gegndi stöðu formanns um tíma. Hún var í æskulýðsdeild þar sem hún einnig gegndi stöðu formanns. Á árunum 1997-2000 var Helga framkvæmdastjóri Fáks og gjaldkeri Fáks frá 2006-2013.
Hún hefur verið í stjórn meistaradeildar æskunar og verið í undirbúningsnefnd æskan og hesturinn. Þá hefur Helga einnig látið til sín taka í æskuliðsmálum í Feif. Helga sat í stjórn æskuliðsnefndar Feif frá 2007 – 2022 og kom þar að skipulagi á Youth Cup á Hólum 2014, Youth Camp á Hestheimum 2019 og Feif youth seminar í Eldhestum 2019 ásamt því að fara sem farastjóri íslensku þátttakendanna í flest skiptin.
Helga hefur einnig verið virk innan starfsins hjá Landsambandi hestamanna frá 2005. Þar hefur hún setið mörg ár í æskulýðsnefnd ásamt því að sitja í varastjórn og stjórn.
Það er ljóst að Helga brennur fyrir því sem hún tekur sér fyrir hendur og þá sérstaklega æskulýðsmálum.
Sæmundur Ólafsson – LH félagi ársins
Sæmundur hefur í mörg ár staðið vaktina við alla helstu viðburði og mót í Fáki. Hann er ávallt boðinn og búinn til að aðstoða, hvort sem það er við undirbúning eða vinnu á viðburðunum sjálfum.
Sæmundur er nefndarmaður í mótanefnd Fáks en sú nefnd heldur meðal annars Reykjavíkurmeistaramót sem er stærsti hestaviðburður í Íslandshestamennskunni þau ár sem ekki er Landsmót. Til marks um hans óeigingjarna og mikla starf má öruggt telja að yfirgnæfandi hluti knapa mótsins þekki til hans þar sem hann stendur vaktina á Reykjavíkurmeistaramóti frá morgni til kvölds.
Sæmundur er öðrum félagsmönnum Fáks mikil fyrirmynd og án hans og annarra sjálfboðaliða Fáks gæti félagið ekki haldið mót og viðburði