Fákar og fjör er hestaíþróttaklúbbur fyrir börn og unglinga í Fáki. Klúbburinn gefur æskunni tækifæri til þess að stunda hestamennsku á ársgrundvelli. Markmið hestaíþróttaklúbbsins er að færa hestamennskuna á sama stall og aðrar íþróttagreinar og auka þannig færni, þekkingu og félagsleg tengsl barna og unglinga. Hestamennska sem íþróttagrein er frekar einstaklingsmiðuð en með því að auka samhug og samvinnu getur hestaíþróttin sem hópgrein verið mikilvægur þáttur í forvörnum og uppeldisþætti barna og unglinga.

Sif og Karen stofnuðu klúbbinn árið 2014 og hefur starfið verið í sífelldri mótun frá upphafi og með hverju árinu fæst reynsla um hvernig hægt er að mæta þörfum breiðs hóps knapa sem sækir til kennslu. Flestir nemendurnir mæta með sína eigin hesta, en einnig hefur verið reynt að útvegað lánshesta til að aðstoða áhugasama krakka sem ekki hafa bakland í hestamennsku. Við skipulag starfsins er gengið út frá því að bjóða upp á “eitthvað fyrir alla” og að erfiðleikastig kennslunnar sé hæfilega krefjandi fyrir hvern nemanda til að stuðla að gleði, árangri og framförum. Fyrir yngstu knapana er lögð áhersla á færniþjálfun í gegnum leik þar sem tvinnaðar eru inn uppbyggilegar grunnæfingar. Eftir því sem aldur og færni eykst, verður erfiðleikastigið hærra og æfingarnar markmiðatengdari. Í bland við verklega reiðtíma er boðið upp á bóklegt nám og aðra hestatengda viðburði. Á hverju ári er boðið uppá knapamerkjapróf og fjölmennt er í léttari keppnisgreinar sem eru í boði innan Fáks.

Í vetur verða BREYTTAR ÁHERSLUR og ýmsar NÝJUNGAR í boði.

Þrepaskipt æfingakerfi í hestamennsku er hugmynd sem hefur verið í mótun í nokkurn tíma, en næsta vetur verður fyrsta prófraunin á þessu spennandi fyrirkomulagi. Langtímamarkmiðið er að auka samfellu í þjálfun ungra knapa með skýru æfingakerfi þar sem unnt verður að mæla árangur með ákveðnum mælistikum. Framtíðarsýnin er að haldin verða opin punktamót þar sem nemendur geta reynt við ákveðin færnistig. Með aðstoð þjálfara setja nemendur sér skýr markmið á þjálfunartímabilinu og keppa loks í sínum styrkleikaflokki í fjölbreyttum verkefnum sem reyna fyrst og fremst á hæfni knapans frekar en hæfileika hestsins. Draumurinn er að þrepaskipt æfingakerfi muni festast í sessi innan hestamannafélaga á landsvísu og höfði til breiðs hóps knapa sem æfa hestamennsku á ársgrundvelli.

Eins og fram kom hér að ofan er hugmyndin enn í mótun, en undirtónninn í starfinu í vetur miðar að því að nemendur munu fá tækifæri til að þreyta ákveðin verkefni/stig/þrep í lok annarinnar á Fákar og fjör helgi sem verður vísir að svokölluðu punktamóti.

Við bjóðum uppá hóp fyrir yngri aldurshópa (pollahópa ≈ 5-9 ára). Kennslan verður 1x í viku á sunnudögum. Einnig verða nokkrir óhefðbundnir tímar þar sem börnin mæta ekki með hesta. Í gegnum leik, gleði og gaman öðlast börnin traust og læra grunnatriði í stjórnun og ásetu.

Nemendur sem eru 10-12 ára fá einnig fjölbreytta kennslu. Í bland við gleði og gaman verða gerðar meiri kröfur um vandaða reiðmennsku og þjálfun. Nemendur læra að setja markmið og verða m.a. undirbúnir undir að þreyta ákveðin færnistig á punktamótinu ásamt því að leggja grunninn að því að þreyta fyrstu stig knapamerkjanna eftir að þau hafa náð 12 ára aldri ef þau kjósa það.

Kennsla fyrir nemendur sem eru 12 ára og eldri verður stigskipt. Markmiðasetning, grunnreiðmennska og uppbyggileg þjálfun hestsins er rauði þráðurinn og nemendur verða m.a. undirbúnir undir að þreyta ákveðin færnistig á punktamótinu og/eða verklegt knapamerkjapróf.
Í bland við hefðbundna tíma munum við fjölmenna á hina ýmsu viðburði sem eru í boði innan félagsstarfs Fáks 🙂

Verið er að leggja lokahönd á skipulag og uppsetningu fyrir veturinn. Þeir sem eru áhugasamir og vilja fá fréttir af skráningu um leið og þær berast er bent á að skrá sig á póstlistann hér að neðann. Þetta gefur okkur innsýn í fjölda iðkenda í vetur.

Bestu kveðjur,
Sif og Karen

https://forms.gle/b1SivpvYbaZYtd3L6