Kæru Fáks félagar.

Ég undirritaður vil hér með koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa stutt mig, starfsmenn og stjórn Fáks síðastliðin 2 ár. Þetta var skemmtilegur og mjög annasamur tími og hafa fjölmargir Fáks félagar unnið mikið og gott starf fyrir félagið á þeim tíma eins og oft áður.

Á síðasta aðalfundi Fáks var kosinn nýr formaður félagsins og eins og allir vita sem þar mættu var hart tekist á um formennsku í félaginu. Ekki var ég sáttur við aðdraganda fundarins, framgöngu einstakra fundarmanna eða niðurstöðu hans. Tel ég að þar hafi tekist á sérhagsmunir einstakra félagsmanna og atvinnumanna og hins almenna félagsmanns, þar sem hinn almenni félagsmaður beið lægri hlut.

Rúnar Sigurðsson

Rúnar Sigurðsson

Óttast ég að sérhagsmunir og stöðnum muni ráða ríkjum og öll sú mikla vinna sem unnin var af stjórn félagsins muni ekki nýtast til framtíðar. Af sjö manna stjórn í félaginu eru einungis þrír sem halda áfram, þar af tveir af þeim með stutta stjórnarsetu og ljóst að mikil þekking tapaðist. Ég taldi mig og stjórn félagsins vera á vegferð sem væri hagsmunum allra félagsmanna í Fáki til hagsbóta. Það þarf að halda því uppbyggingarstarfi áfram:

Halda þarf áfram að bæta aðstöðu á félagssvæði Fáks þannig að hinn almenni félagsmaður njóti góðs af s.s. viðhald reiðvega, vinnuaðstöður og inniaðstöður, keppnisvellir og fl.
Nýliðun í félaginu er okkur öllum mikilvæg svo félagið nái að vaxa og dafna til framtíðar. Þar hefur nú þegar verið lagður góður grunnur með Reykjavíkurborg sem miðar að því að koma hestamennsku inn sem valfagi í grunnskóla.
Viðhalda því að Fákssvæðið sé eitt það besta sem boðið er upp á hér á landi og verði áfram áhugaverður valkostur fyrir alla hestamenn (áhugamenn/atvinnumenn) til að stunda sína hestamennsku. Á ári hverju útskrifast hópur menntaðra hestamanna, Fákur á að kappkosta að vera álitlegur kostur fyrir þennan hóp til að auka við þekkingu og uppbyggingu á svæðinu.
Ætlun mín var að starfa fyrir félagið í nokkur ár í viðbót og byggja upp það sem stefnt hafði verið að. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa komið til mín eða haft samband við mig og lýst undrun sinni á málinu öllu. Margir fundarmenn sátu eftir sem hálf lamaðir eftir þau ósköp sem áttu sér stað á fundinum og spyrja sig hvað hafi eiginlega gerst í félaginu okkar.

Við þá vil ég segja, við skulum ekki láta einstaka félagsmenn skemma fyrir okkur skemmtilegt og öflugt félag, höldum áfram að hafa áhrif og byggja upp á jákvæðan hátt. Látum ekki frumstæðar aðferðir við valdabrölt hafa áhrif á langtíma markmið félagsins. Vona ég að umræðan á milli félagsmanna verði málefnaleg og gagnrýnin, þannig þroskumst við og fetum framtíð til velfarnaðar.

Ég lít stolltur um öxl og tel mig hafa varið hagsmuni félagsins í hvívetna enda hef ég ekki aðra hagsmuni en hagsmuni Fáks að leiðarljósi. Það var mitt hlutverk sem formanns.

Að lokum óska ég nýrri stjórn velfarnaðar í störfum sínum og að hún beri gæfu til að gæta að hagsmunum allra félagsmanna í Fáki.

Rúnar Sigurðsson.
Fyrrverandi formaður Fáks.