Á Gæðingamóti Fáks (áður Hvítasunnumóti Fáks) er veittur veglegur farandgripur sem vinir Ragnars Gregesen Thorvaldsen gáfu til minningar um hann og létu þeir nokkur orð fylgja með sem segja alla söguna um Ragnar og styttuhafann ár hvert. Það gleður ætíð augu okkar að sjá prúðbúinn knapa á vel hirtum hesti. Um langt árabil áttum við Fáksmenn einn félaga sem vakti athygli hvar sem hann fór. Hann bar sig höfðinglega, var ætíð vel og snyrtilega klæddur og reið ávallt fasmiklum og vel hirtum hrossum. Þessi Fáksfélagi, sem nú er látinn fyrir all nokkrum árum, hét Ragnar Gregesen Thorvaldsen. Það tóku allir eftir Ragnari Gregesen þar sem hann reið um á hestum sínum. Eftir fráfall Ragnars gáfu vinir hans svokallaða Gregesen-styttu til minningar um þennan minnisstæða Fáksfélaga. Styttan er farandgripur og skal veita á Gæðingamóti Fáks á hverju ári. Hún er veitt Fáksfélaga sem klæðist Fáksbúningi og þykir vera til fyrirmyndar hvað varðar prúðmannlega reiðmennsku, klæðaburð og hirðingu hests. Hesturinn skal vera að fullu í eigu Fáksfélaga. Þeir sem velja styttuhafan eru dómarar mótssins og mótsstjóri.
Í ár hlaut Berglind Ragnarsdóttir styttuna og óskum við henni til hamingju með heiðurinn og að varðveita þessa flottu styttu næsta árið.