Tilkynning frá UMFÍ

Stjórnvöld virkjuðu í dag heimildir sóttvarnarlaga til að takmarka samkomur á Íslandi. Í þeim felst sú fordæmalausa aðgerð að takmarkanir eru settar á allar skipulagðar samkomur vegna farsóttar, þ.e. samkomubann sem tekur gildi á miðnætti á sunnudagskvöld til næstu fjögurra vikna.

Um tvenns konar bann er að ræða. Annars vegar samkomubann sem gildir frá 16. mars til 13. apríl. Þetta bann hefur víðtæk áhrif á íþróttahreyfinguna því í takmörkuninni felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma bannsins. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 100 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Íþróttaviðburðir falla þar undir. Í takmörkuninni felst einnig að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli eftir því sem unnt er, rými skipulögð með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga.

Hins vegar er um að ræða takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Það tekur gildi 16. mars og gildir til 12. apríl. Heimilt er að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa. Íþróttastarf þeirra aldurshópa sem stunda grunnskólanám fellur undir þessar takmarkanir. Það þýðir að enn sem komið er, er heimilt að halda úti æfingum fyrir þessa aldurshópa ef viðkomandi íþróttafélag tryggir að ekki séu fleiri iðkendur en 20 á æfingu í sama rými og að tryggt sé að engin blöndun iðkendahópa eigi sér stað við komu og brottför.