Ný stjórn Landsmóts hestamanna, sem fram fer í Reykjavík 2018, hefur ráðið Áskel Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóra mótsins.
Áskell Heiðar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands, með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og MA gráðu í ferðamálafræði og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum og Leeds Metropolitan University. Áskell Heiðar hefur skipulagt fjölda viðburða hérlendis á undanförnum árum t.d. tónlistarhátíðina Bræðsluna, auk þess að stýra Landsmóti hestamanna sem fram fór á Hólum í Hjaltadal sl. sumar. Þá kennir hann einnig viðburðastjórnun og ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands.
Mótið mun marka ákveðin tímamót í rekstri landsmóta, en þetta verður í fyrsta sinn sem Landssamband hestamannafélaga mun ekki sjá um mótið, heldur mun hestamannafélagið Fákur sjá alfarið um mótshaldið með dyggum stuðningi Reykjavíkurborgar líkt og á síðastu landsmótum sem haldin hafa verið í Reykjavík. Fákur hefur stofnað sérstakt félag, LM 2018 ehf. og skipað því sérstaka stjórn sem mun stýra skipulagningu mótsins, en í henni sitja; Sigurbjörn Magnússon, formaður, Hjörtur Bergstað, varaformaður, Ingibjörg Guðmundsdóttir, ritari, og meðstjórnendur eru Katrín Pétursdóttir, Sigurbjörn Bárðarson, Haukur Baldvinsson, Áshildur Bragadóttir og Hrólfur Jónsson.
Búist er við miklum fjölda gesta á landsmótið sem fram fer fyrstu vikuna í júlí 2018 og að sögn Áskels Heiðars verður fyrsta verkefni að undirbúa sölu á aðgöngumiðum og pökkum fyrir erlenda gesti þar sem hægt verður að kaupa gistingu með aðgöngumiðunum. Þá mun nú fara af stað vinna við að virkja þann mikla kraft sem býr í hestamönnum og koma af stað starfshópum sem taka að sér ákveðin verkefni í undirbúningi mótsins. „Landsmót er samvinnuverkefni þar sem mjög margir leggja hönd á plóg og hér í Reykjavík eins og víða annars staðar er til mikill mannauður og mikil þekking á svona mótahaldi, það verður mitt stærsta verkefni á næstu mánuðum að virkja þennan mannauð“ segir Áskell Heiðar.
Landsmótið í Reykjavík verður það 23. í röðinni en það fyrsta var haldið á Þingvöllum árið 1950. Síðast fór Landsmót hestamanna fram í Reykjavík árið 2012.
Nánari upplýsingar veitir Áskell Heiðar í síma 862 6163