Almennur kynningarfundur um Meistaradeild æskunnar var haldinn í félagsheimili Fáks í gærkveldi. Það mættu um 100 manns á fundinn og er ljóst að mikill áhugi er fyrir þessari deild. Deildin er hugsuð sem tækifæri fyrir unga knapa til að eflast og þroskast sem reiðmenn. Mikilvægt atriði í þessari mótaröð er að það er bara einn knapi í braut í einu, þannig að það reynir mikið á reiðmennsku og samspil knapa og hests (m.a. að gangskiptingar séu réttar og á réttum stöðum)  og er þessi mótaröð hugsuð fyrir reynslumeiri knapa á þessu aldurbili.  Í vetur verða einnig boðið upp á aðra mótaröð, einstaklingskeppni þar sem hægt verður að safna stigum osfrv.  sem verður öllum opinn.

Undirbúningsnefnd skilaði af sér tillögum að deildinni fyrir kynningarfundinn en endanlegar reglur verða ekki gefnar út fyrr en vitað er hversu margir sækja og um að vera í deildinni. En það sem gengið er út frá í byrjun er;

*Aldurhópurinn er 13-18 ára (seinasta árið í barnaflokki, unglingaflokkur og fyrsta árið í ungmennaflokki).

*Mótaröðin er liða- og einstaklingskeppni.

*Sennilega verða 5 í hverju liði og er kostnaður á hvert lið 150 þús.

*Mótin verða fjögur til fimm yfir veturinn og keppt verður seinni partinn á sunnudögum.

*Sækja verður um að komast í deildina því það gæti þurft að takmarka fjölda einstaklinga eða liða  sem tekur þátt ef mjög margir sækja um.

Hver einstaklingur sem hefur hug á að keppa í deildinni þarf að sækja um á netfangið hestameistaradeild@gmail.com og koma þarf fram í umsókninni;

Nafn, kennitala, hestamannafélag, netfang (þitt og forráðamanns), gsm númer og helsti keppnisárangur (síðustu 2 ára).

Öllum heimilt að sækja um sem uppfylla þessi skilyrði en skilafrestur til að sækja um er út sunnudaginn 18. september nk.

Undirbúningsnefnd kemur svo saman í næstu viku og mun eftir þann funda gefa út nánari útlistingu á fyrirkomulagi deildarinnar.