Nú er mótatímabil sumarsins hafið og alltaf er verið að leita eftir góðum riturum, bæði til að rita hjá dómurum og í dómpalli.

SportFengur er mótaforrit LH og er mjög þægilegt og einfalt í notkun. Hjá dómurum slá ritarar inn einkunnir í iPada eða fartölvur og í dómpalli er yfirleitt notast við fartölvur.

Það þarf varla að taka það fram að kostirnir við að taka þátt og fá innsýn í mótastörfin eru þeir að maður skilur einkunnagjafir dómara betur, öðlast reynslu af mótaforriti hestamanna, kynnist skemmtilegu fólki sem hefur sama áhugamál og maður sjálfur,  leggur mótinu/félaginu sínu lið í mótahaldinu og situr í besta sætinu!

Handbók SportFengs er að finna á vef LH – smellið hér.

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér málið nánar ætlum við að bjóða upp á fræðslu um það hvernig SportFengur virkar og hvað þarf að hafa í huga sem ritari eða starfsmaður við tölvuvinnslu. Við munum stofna prufumót og fikta mikið, skoða hina ýmsu hluta forritsins og ræða málin.

Við ætlum að hittast í veislusal Lýsishallarinnar þriðjudaginn 21. maí kl 19:30.

Sjáumst þar!