Í dag var undirritað samkomulag Reykjavíkurborgar og hestamannafélagsins Fáks vegna Landsmóts hestamanna í Víðidal næsta sumar. Samkomulagið snýst um framkvæmdir á félagssvæði Fáks, sem verður framkvæmdaaðili Landsmótsins.

Landsmót hestamanna verður haldið í Víðidal í Reykjavík 1. – 7. júlí á næsta ári, 2024. Hestamannafélagið Fákur mun sjá um allan undirbúning og þær framkvæmdir sem þarf að sinna til að Landsmót geti farið fram. Undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri því samkomulag við félagið í dag, um endurbætur á félagssvæði þess. Framkvæmdirnar fela í sér viðhald á skeiðbraut neðan félagsheimilis, lagfæringar á keppnisvelli (Hvammsvöllur), heflun á stóra hringvellinum, viðhald á upphitunaraðstöðu, viðhald á Reiðhöllinni og endurnýjun á aflstreng við Hvammsvöll og við kynbótavöll.

Samkomulagið ásamt kostnaðaráætlun var lagt fram til kynningar og samþykkt í borgarráði 7. desember síðastliðinn. Samkvæmt því greiðir Reykjavíkurborg Fáki alls 30 milljónir króna. Þar af verða 20 milljónir greiddar á þessu ári, en það er áætlaður kostnaður verkefnisins fyrir árið 2023. Þá greiðir Reykjavíkurborg tíu milljónir til verkefnisins á næsta ári, 2024.

„Það er frábært fyrir hestaíþróttina og Reykjavík að næsta Landsmót verði haldið í borginni,“ segir borgarstjóri. Undirbúningur Landsmóts, sem er með stærstu íþróttaviðburðum landsins, hefur verið í fullum gangi á þessu ári. Þetta verður tuttugasta og fimmta Landsmótið frá upphafi en í fjórða sinn sem mótið er haldið í Reykjavík.