Reiðveganefnd Fáks sótti um og fékk úthlutað styrk af reiðvegafé Samgöngu- og ferðanefndar LH. Með mótframlagi frá Reykjavíkurborg hefur verið ákveðið að bæta við reiðvegum á Víðidalssvæðinu þetta árið.

Reiðveganefnd sendi inn ósk til Reykjavíkur þegar vinna við Elliðaárdalsskipulagið var í gangi um að samnýta veiðislóða meðfram Elliðaánum á Víðidalssvæðinu. Orðið var við þeirri ósk og í góðu samstarfi við Stangaveiðifélag Reykjavíkur er þetta nú að verða að veruleika.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að um tvær nýjar leiðir er um að ræða.

  1. Tenging frá suðurenda Hvammsvallar yfir tún og inn á Trippahringinn.
  2. Tenging af Trippahring yfir á veiðislóða sem liggur meðfram Elliðaá. Verður vegurinn byggður upp eins og reiðvegur en áfram verður leyfð umferð bifreiða veiðimanna um veginn.

Framkvæmdir eru þegar hafnar við tengingu frá Hvammsvelli yfir á Trippahring og að skipta um yfirborðsefni í veiðislóðanum.

Vert er að benda á það að tenging frá Trippahring yfir á veiðislóða hefur ekki formlega verið samþykkt þar reiðvegurinn er innan afmörkunar nýs skipulags fyrir Elliðaársdal sem ekki hefur verið staðfest. Því verður ekki farið í framkvæmdir við þá tengingu fyrr en skipulag Elliðaárdals hefur verið samþykkt.