Á aðalfundi félagsins þann 29. apríl sl. var kjörinn nýr formaður Fáks, Hlíf Sturludóttir. Þá var kosin gjaldkeri Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir og meðstjórnendur Hákon Leifsson og Vilfríður Fannberg Sæþórsdóttir.

Er stjórn því skipuð eftirfarandi 2025 til 2026:

  • Hlíf Sturludóttir, formaður
  • Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir, gjaldkeri
  • Ívar Hauksson, ritari
  • Hákon Leifsson, meðstjórnandi
  • Sigurður Elmar Birgisson, meðstjórnandi
  • Vilfríður Fannberg Sæþórsdóttir, meðstjórnandi
  • Þormóður Skorri Steingrímsson, meðstjórnandi

Á fyrsta fundi stjórnar verður kosinn varaformaður.

Hjörtur Bergstað lét af störfum sem formaður eftir að hafa verið formaður óslitið frá árinu 2013. Er honum þökkuð góð störf í þágu félagsins og félagsmanna.

Ávarp Hlífar til félagsmanna sem hún fór með á aðalfundinum er sem hér segir:

Fundarstjóri, góðir Fáksfélagar

Ég vil byrja á því að þakka stuðninginn og traustið sem ég hef fundið frá félagsmönnum við framboð mitt til formanns Fáks.

Ég hef stundað hestamennsku frá því að ég var barn og reið þá út í Kjósinni. Ég ólst upp í Árbænum og því var Elliðaárdalurinn og Selásinn, sem þá var óbyggður, leikvöllurinn minn og ég stalst oft í Faxabólið að kíkja á hestana. Dalurinn er mér því kær. Af öðrum hesthúsahverfum ólöstuðum þá skarar Víðidalurinn fram úr á marga vegu og er svæðið einstakt á heimsvísu. Þróun byggðarinnar í kringum athafnasvæði Fáks hefur verið hröð og veldur það ýmsum áskorunum að halda og þjálfa hesta í ys og þys borgarinnar. Aukinn áhugi á almennri útivist gerir það einnig að verkum að við deilum með fleirum útivistasvæðunum í útjaðri borgarinnar. Það verður eitt að mínum megin áhersluatriðum sem formaður að standa vörð um og styrkja athafnasvæði félagsins, reiðleiðir í nágrenni þess og huga að öryggismálum á reiðstígum. Ég ætla mér að taka upp samtal við Reykjavíkurborg um bættar merkingar þar sem reiðleiðir þvera göngu og hjólreiðaleiðir. Ég varð til dæmis sjálf fyrir því atviki í síðustu viku að hlaupari fældi  hestinn sem ég var á og var ég nærri því dottin af baki.

Við þurfum að tryggja aðkomu okkar að skipulagsferli því sem er fyrir höndum hjá Reykjavíkurborg um Heiðmörkina og koma inn hugmyndum um styrkingu reiðleiðakerfis svæðisins. Það verður einnig stór áskorun að tryggja reiðleiðir til og frá svæðinu við tvöföldun Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar. Ég ætla mér að styðja við reiðveganefnd í þeirri vinnu sem þegar er í gangi. Þar hefur Dagný Bjarnadóttir unnið frábært starf sem ber að þakka.

Ýmsar hugmyndir eru uppi um byggingu reiðhalla á athafnasvæði Fáks. Ein reiðhallarhugmynd þarf ekki að útiloka aðrar en við þurfum að gæta þess að byggja svæðið upp á þann hátt, að það styrki og efli hestamennsku á svæðinu. Eitt af markmiðum mínum sem formaður verður að koma reiðhallarbyggingum á athafnasvæði Fáks á dagskrá og til framkvæmdar.

Það eru mikil tækifæri í því að koma hesthúsahverfinu í Almannadal á betri stað en það er á í dag. Það er ánægjulegt að sjá að það er uppbygging í gangi á svæðinu og það liggja mikil tækifæri í að byggja það hverfi upp til framtíðar, enda einstakt útreiðasvæði. Það þarf samhent átak hesthúsaeigenda, byggingarréttareigenda, Fáks og Reykjavíkurborgar að færa það hverfi til betri vegar. Það mun hins vegar kalla á að fólk hætti að líta í baksýnisspegilinn og horfi fram á við hvað hægt sé að gera miðað við þá stöðu sem þar er uppi.

Fákur er gríðarlega öflugt félag með mikinn auð hvort sem hann er talinn í fólki eða hestum. Á svæðinu er mikill fjöldi atvinnumanna sem skila miklu til félagsstarfsins og öflugir reiðskólar sem leggja mikið til nýliðunar í hestamennsku. Það var ánægjulegt að sjá þá miklu þátttöku sem var á sumardaginn fyrsta, bæði í firmakeppninni og fjölskyldubingóinu sem æskulýðsnefnd hélt. Áhuginn sem þessum tveimur viðburðum var sýndur, sýnir þann mikla þrótt sem er í félaginu.

Mitt markmið sem formaður verður að efla enn frekar það fjölbreytta starf sem unnið er innan félagins og efla þann góða anda sem er í Fáki. Að Fákur verði framúrskarandi hestamannafélag sem hestamenn alls staðar af á landinu líta til, bæði hvað varðar keppni og almennra útreiða. Þess vegna verður það eitt af mínum fyrstu verkefnum sem formaður að bjóða félagsmönnum félagsins til vinnustofu til að fá hugmyndir frá félagsmönnum hvernig við getum bætt félagsstarfið og fá hugmyndir fyrir stjórn til að vinna með áfram.

Ég vil láta verkin tala og ætla því ekki að hafa þessi orð mikið lengri en ég vonast til að geta staðið hér fyrir framan ykkur að ári og flutt skýrslu um öflugt starf á árinu.

Í lokin langar mig að þakka Hirti fyrir allt það óeigingjarna starf sem hann hefur unnið fyrir félagið á liðnum árum og áratugum. Takk fyrir allt Hjörtur!