Kæru hestamenn,

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomna á stuttan kynningarfund miðvikudaginn 20. apríl milli kl 17:00-17:30  þar sem kynntar verða fyrirætlanir/áform um byggingu á hestaleikvangi á félagssvæði Fáks í Víðidal undir vinnuheitinu Fákshöllin.

Hestamenn hafa í hyggju að láta verða að veruleika gamlan draum um 12.500 fermetra hestaleikvang sem mun umbylta öllu íþróttastarfi hestamanna á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu. Mun slík höll geta hýst allt hestamótahald innanhús allt árið um kring, hvort sem um er að ræða íþrótta- eða gæðingakeppni ásamt því að allt námskeiðahald og kennsla fyrir börn- unglinga og fullorðna fær þá aðstöðu sem svo stórri íþróttagrein sæmir. Þá skapast með þessari breytingu augljósar aðstæður til að efla hestaíþróttaiðkun fatlaðra barna og unglinga, en slíkt hefur verið afar vinsælt þrátt fyrir aðstöðuleysi.

Hestamenn, sem eru orðnir langeygir eftir því að fá alvöru íþróttaleikvang og æfingaaðstöðu sem hæfir þessari fjórðu fjölmennustu íþrótt landsins, sjá nú loks til lands með að af þessu geti orðið.

Hestamannafélagið Fákur er eitt stærsta íþróttafélag Reykjavíkur og hestamennskan ein vinsælasta íþrótt landsins. Það er því mikilvægt að þeir aðilar sem hafa með íþróttamál á höfuðborgarsvæðinu og á landinu láti sjá sig svo við getum í sameiningu látið þetta mikla framfaraskref verða að veruleika.

Kynningin verður í veislusal Reiðhallarinnar í Víðidal kl. 17:00-17:30.

Við skorum því sérstaklega á alla núverandi og tilvonandi borgarfulltrúa að mæta og kynna sér málið.

Með von jákvæðar undirtektir,
Áhugahópur hestamanna um uppbyggingu á félagssvæði Fáks