Íslandsmótið í hestaíþróttum verður haldið á félagssvæði Fáks í Reykjavík dagana 22. – 27. júlí. Mótið verður óvenju viðamikið því allir flokkar (börn, unglingar, ungmenni og fullorðnir) munu etja kappi þessa daga. Verið er að semja við veðurguðina þessa dagana og ganga þær viðræður mjög vel 😉 Margt annað verður gert til að mótið verði gott og skemmtilegt s.s. verður Reiðhöllin undirlögð af leiktækjum frá Skemmtigarðinum. Mikið verður gert fyrir keppendur og áhorfendur á mótinu svo við ætlum að eiga saman skemmtilegt Íslandsmót.

Öll forkeppni verður keyrð á tveimur völlum samtímis til að koma allri dagskráinni fyrir en reiknað er með miklum fjölda skráninga. Skráningafrestur er til miðnættis á fimmtudeginum 10. júlí og þurfa keppendur að skráð á sportfeng (mót – Fákur osfrv.).  Skráningargjald er kr. 4.500 í barna og unglingaflokki 3.500 í skeiðgreinar (nema gæðingaskeið) og 5.500 í fullorðinsflokkum (skráning staðfest með greiðslu, annað ekki tekið til greina). Einnig verður hægt að skrá sig til miðnættis sunnudaginn 13. júlí en þá eru skráningargjöldin 2.000 kr. hærri á hverja grein. Keppendur athugið að það er einn keppandi inn á vellinum í einu nema í fjórgangi barnaflokki, en þar verða 3 inn á í einu og riðið eftir þul.

Tjaldstæði og hesthús á svæðinu.

Við hvetjum knapa til að fylgjast vel með upplýsingum á heimasíðu Fáks sem og facebooksíðu Fáks („læka“ facebooksíðuna á heimasíðunni og stofnaður sér hópur fyrir þátttakendur, endilega gangið í þann hóp).

Hlökkum til að sjá sem flesta.

Kveðja frá mótanefnd