Í ljósi frétta af vandræðum við losun hrossataðs á höfuðborgarsvæðinu vilja forsvarsmenn hestamannafélaganna Fáks og Spretts ásamt Sorpu koma á framfæri að verið er að vinna sameiginlega að lausn á því vandamáli sem skapast hefur eftir að losunarstöðum var lokað af heilbrigðiseftirlitinu í haust.
Strax og losunarstöðum var lokað í október árið 2024 höfðu forsvarsmenn hestamannafélaganna samband við forsvarsmenn Sorpu og var fljótlega fundað varðandi þá verskrá sem þar er í gildi varðandi móttöku á taði. Vilji er hjá Sorpu til að endurskoða þá verðskrá.
Þá hafa þessir aðilar einnig horft til annarra lausna. Hrossatað er gott efni til uppgræðslu á gróðurvana land sem víða er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Halda má því til haga að Heiðmörkin, útivistarparadís höfuðborgarsvæðisins, er að miklu leyti grædd upp með búfjáráburði og þá aðallega hrossataðs af höfuðborgarsvæðinu.
Fyrirhugað er að funda á næstu dögum með öðrum hagsmunaaðilum að farsælli lausn.
Hestamannafélagið Fákur
Hestamannafélagið Sprettur
Sorpa