Það verður fjör í sumar því Fákur fær það mikla hlutverk að halda sameiginlegt Íslandsmót fullorðinna, barna, unglinga og ungmenna dagana 23. – 27. júlí. Stefnt er að því að halda glæsilegt Íslandsmót og eru því allar hjálparhendur vel þegnar því við viljum taka vel á móti keppendum og gestum. Mótanefnd og framkvæmdanefnd verður skipuð reynslumiklu fólki og viljum við biðja alla sem áhuga hafa á að hjálpa til við undirbúning eða framkvæmd mótsins að hafa samband við okkur á fakur@fakur.is
Í sumar heldur Ísland FEIF Youth Cup á Hólum í Hjaltadal dagana 11. – 20. júlí. Þessi dagsetning er ákveðin af FEIF og stangast því miður á við dagsetningu Íslandsmóts yngri flokka. Þess vegna hefur stjórn LH, í góðri samvinnu við stjórnir hestamannafélaganna Sörla og Fáks, komist að þeirri niðurstöðu að Fákur haldi bæði mótin saman á félagssvæði Fáks í Víðidal dagana 23. – 27. júlí 2014.
Það er skoðun stjórna LH, Fáks og Sörla að þannig verði best staðið að mótunum og um leið staðinn vörður um hagsmuni hestaíþróttarinnar, keppenda og mótshaldara.
Jafnframt hvetja stjórnir LH og Fáks Landsþing LH í haust, til að styðja hestamannafélagið Sörla í því að halda Íslandsmót eldri flokka árið 2015, óski stjórn félagsins eftir því.