Stutt samantekt um sögu Fáks
Fákur er fyrstu félagasamtök hestamanna. Það er okkur öllum hollt að líta yfir farinn veg. Það gefur okkur færi á því að læra af reynslu annarra, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, því sjaldnast erum við að finna upp hjólið. Á næsta ári verður Fákur níræður og af því tilefni er gaman að dusta rykið af sögunni og skoða upphafið að stofnun okkar góða félags og hvernig hestamannafélagið Fákur varð að því stórveldi sem það er í dag. Í kjallara Nýja bíós, í svokölluðum efri sal kaffihúss Rosenbergs, komu 40 hestamenn saman þann 24. apríl árið 1922. Tilefnið var stofnun landsins fyrstu félagasamtaka hestamanna, nefnilega hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Einn var sá maður þessum tíma sem hafði brennandi áhuga á öllu sem laut að hestum og var hann potturinn og pannan í því umstangi sem fylgdi stofnun félagsins. Þetta var Daníel Daníelsson ljósmyndari og seinna dyravörður stjórnarráðsins. Daníel varð fyrsti formaður félagsins og allt þar til hann lést árið 1937. Hinn kunni knapi og keppnismaður Sigurbjörn Bárðarson orti vísur um Daníel og hest hans Háfeta og flutti á 65 ára afmæli Fáks árið 1987:
Stofnaði Fák og fyrst nam stýra hinn frækni, snjalli Daníel. Á Háfetanum hreina, skíra hylli náði fljótt og vel.
Jórinn snjalli fimur, frár fremstur allra var hann Næmur, fagur, nýtur, klár nafn með rentu bar hann.
Þau málefni sem brunnu á hestamönnum í þá daga voru í fyrsta lagi að það var hafin svo mikil nýrækt í löndum borgarinnar þar sem hestarnir höfðu gengið á sumrum, að eigendur þeirra urðu að hrekjast með þá eitthvað lengra. Sem sagt, skortur á hagabeit fyrir hrossin innan bæjarmarkanna. Í öðru lagi var umferð bifreiða orðin svo mikil, að menn voru nánast í lífshættu létu þeir sjá sig á þeim á hestum. Þessi mál sem og áhugi manna á kappreiðum, voru helsta kveikjan að stofnun félagsins.
Athafnasvæði við Elliðaár – Neðri-Fákur
Þrátt fyrir mikil vanefni hins unga félags og almennt þröngan fjárhag manna á þessum árum, var ekki verið að tvínóna við hlutina. Ráðist var í að koma upp skeiðvelli við Elliðaár af slíkum krafti og myndarskap að aðdáunarvert þykir. Á aðeins rúmum tveimur mánuðum tókst fjörutíu manna félaginu að finna hentugan stað fyrir skeiðvöll, fá landið til ráðstöfunar hjá borginni, safna fé til framkvæmda og ljúka gerð vallarins. Þar voru svo háðar fyrstu kappreiðar félagsins sunnudaginn 9. júlí 1922. Við gerð vallarins var mönnum þó ljóst að þarna væri ekki framtíðarskeiðvöllur félagsins, þar sem staðurinn fékkst ekki leigður nema um takmarkaðan tíma, sumarbústaðir þrengdu að svæðinu, landið bauð ekki upp á áhorfendabrekkur og engin tök voru á að koma þarna upp hringvelli. Skeiðvöllur þessi var þó við lýði í tæpa fimm áratugi eða fram til vorsins 1970 að kappreiðar voru haldnar þar í síðasta sinn.
Í formannstíð Þorláks G. Ottesen á árunum frá 1953-67, var háð mikil barátta við borgaryfirvöld og borgarskipulag, um leyfi til hesthúsabyggingar við gamla skeiðvöllinn. Það var síðan 10. júní 1959 að leyfi fékkst fyrir byggingu hesthúss við völlinn. Þar með lauk um 35 ára baráttu félagsins fyrir að fá leyfi til að byggja varanlegt hesthús sem stæðist eðlilegar kröfur, og hófust framkvæmdir strax. Árið 1963 skera borgaryfirvöld upp herör á hendur öllum skúreigendum í Reykjavík. Voru skúrar alls staðar brenndir og fjarlægðir þar sem þeir voru innan Elliðaánna. Margir voru þá ennþá með hesta sína í skúrum víðsvegar um borgina og þrengdi nú að hesteigendum í Reykjavík. Eftir mikla baráttu Fáksmanna, tókst loks í júlí 1964 að fá leyfi til að byggja fjögur hesthús til viðbótar á staðnum, fyrir 112 hesta. Eftirspurn félagsmanna eftir húsunum varð svo mikil að taka varð upp skömmtun og gat hver félagsmaður einungis fengið réttindi fyrir tvo hesta og fengu færri en vildu.

Víðivellir koma til skjalanna
Nánast frá stofnun félagsins höfðu hestamenn í Fáki hrakist með aðstöðu sína undan framkvæmdum eftir því sem borgin þandist út. Þannig fór um aðstöðu í Tungu við Suðurlandsbraut, aðstöðu í Laugardalnum og síðast að hluta til aðstöðuna í Neðri-Fáki. Árið 1965 hefst borgin handa við að reyna að koma félaginu burt úr Neðri-Fáki og bjóða Fáki þá land undir hús og jafnvel nýjan skeiðvöll í Breiðholtshvarfi, þar sem Víðivellir, félagssvæði Fáks er núna. Í febrúar árið 1965 er svo ákveðið að sækja um það svæði sem í dag er um 70-75 ha að stærð. Strax var farið í að skipuleggja svæðið og var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt fenginn til þess og Þorvaldur Kristmundsson arkitekt til að teikna fyrstu húsin. Framkvæmdir hófust svo á svæðinu í lok september og voru fyrstu húsin tilbúin í byrjun janúar 1966. Á þessum tíma voru Fáksfélagar orðnir 498 og mikill kraftur í félaginu. Á fimm árum byggði félagið 14 hesthús auk félagsheimilisins við Bústaðaveg og hóf framkvæmdir á nýju athafnasvæði. Fyrir gamla skeiðvöllinn í Neðri-Fáki voru Fáki borgaðar bætur og var því fé varið í gerð nýs vallar á Víðivöllum og „Stóri völlurinn“ leit dagsins ljós, með öllum sínum 1300 metrum. Völlurinn var vígður við hátíðlega athöfn vorið 1971, í formannstíð Sveinbjörns Dagfinnssonar.
Asavöllurinn
Árið 1979 færðu vaskir menn félaginu sínu hvorki meira né minna en heilan hringvöll. Þetta voru þeir Gísli B. Björnsson, Hinrik Ragnarsson, Ragnar Hinriksson, Halldór Sigurðsson, Þorgeir Daníelsson, Örn Þórhallsson, Ragnar Tómarsson, Hólmar Pálsson og Friðrik Jörgensen. Völlurinn fékk nafnið Asavöllur eftir hinum nafntogaða gæðingi Hinriks Ragnarssonar.
Félagsheimilið reis
Á haustdögum 1984 var nýja félagsheimilið gert fokhelt og fóru í hönd skemmtilegir tímar við að einangra, klæða og innrétta nýja húsið. Þetta starf unnu Fáksfélagar í sjálfboðavinnu fyrir félagið sitt. Fleiri framkvæmdir fóru í gang þetta ár en á þessum tíma hófust framkvæmdir við Hvammsvöllinn og áhorfendabrekkuna við hann. Land var sléttað, grasfræi sáð og Skógrækt Reykjavíkur gróðursetti allmikið magn trjáplantna í Víðidalnum. Dalurinn var fegraður enda stóð fyrir dyrum að halda Fjórðungsmót í Reykjavík árið eftir, 1985, sem var og gert. Sama ár vannst sigur í þeirri baráttu Íþróttadeildar Fáks að fá inngöngu í ÍBR og þar með viðurkenningu á hestaíþróttum sem íþrótt. Þá varð Íþróttadeildin fyrsta íþróttadeild hestamannafélags til að fá aðild að sérsambandi íþróttahreyfingarinnar á sínu svæði.
Hvammsvöllur og fjórðungsmót á Víðivöllum
Á aðalfundi félagsins árið 1983 var samþykkt að Fákur myndi sækjast eftir því að halda fjórðungsmót árið 1985 á Víðivöllum. Tókust samningar þar um og var þar með brotið blað í staðarvali á stórmótum, þ.e. að slík mót væru haldin í þéttbýlinu. Ljóst var að uppbyggingin á svæðinu yrði að vera mikil, því byggja þurfti upp nýjan keppnisvöll með glæsilegri áhorfendabrekku. Aðkoma Reykjavíkurborgar að því máli var forsenda þess að unnt yrði að halda mótið. Þúsundum trjáplantna var plantað á svæðinu til að fegra það. Um 50 – 100 manns voru að störfum á svæðinu allt fram að fjórðungsmótinu. Þegar upp var staðið hafði verið reist eitt fullkomnasta mótssvæði landsins til að halda fjölmenn hestaþing, svo sem fjórðungsmót og landsmót.
Reiðhöll rís í Víðdalnum
Tími var kominn til að reisa reiðhöll í Reykjavík og hófst undirbúningur reiðhallarbyggingar á árunum 1981 – 1985. Félagið Reiðhöllin hf. var svo stofnað í Reykjavík hinn 12. janúar 1985. Stofnendur voru 24, þ.e. 9 félög bænda og hestamanna, 3 fyrirtæki og 12 einstaklingar. Fyrirhugað var að bygging yrði risin árið 1987. Það var svo hinn 3. júní 1986 sem fyrsta skóflustungan var tekin og rættist þar langþráður draumur hestamanna með tilkomu Reiðhallarinnar í Víðidal.
Reiðhöllin var vígð með pompi og pragt föstudagskvöldið 10. júlí 1987. Var þá búið að reisa húsið og ganga frá því að utan en ýmislegt var ófrágengið innanhúss. Strax á haustdögum 1988 var fjárhagsstaða reiðhallarinnar orðin erfið og lausafjárstaðan slæm. Margt var enn óframkvæmt í reiðhöllinni og hún því ekki full kláruð. Reiðhöllin hafði ekki fengið nein fjárframlög frá sveitarfélaginu eins og tíðkaðist um íþróttamannvirki annarra aðildarfélaga ÍSÍ.
Hinn 29. september 1989 óskuðu forráðamenn Reiðhallarinnar eftir því að Reiðhöllin yrði tekin til gjaldþrotaskipta og fyrir Fáksmenn var það mikið áhyggjuefni. Nú var úr vöndu að ráða, Fáksmenn vonsviknir og veltu fyrir sér hvað skyldi gera við Reiðhöllina. Jón Albert Sigurbjörnsson sem starfaði um árabil í íþróttardeild Fáks og varð seinna framkvæmdastjóri félagsins, var þeirrar skoðunar að Reykjavíkurborg ætti að kaupa Reiðhöllina og reka hana eins og hvert annað íþróttamannvirki í eigu borgarinnar. Það varð svo úr að eftir borgarstjórnarkosningarnar 1994 tók Reykjavíkurborg þá ákvörðun að kaupa Reiðhöllina af Stofnlánadeild landbúnaðarins. Um haustið var gerður samstarfssamningur milli Fáks og ÍTR um rekstur Reiðhallarinnar. Hefur það fyrirkomulag veri við líði allar götur síðan. Eftir að borgin eignaðist Reiðhöllina var haldið áfram með framkvæmdir en höllin hafði verið langt frá því að vera fullkláruð við gjaldþrotið. Árið 2005 var síðan lokahnykkur framkvæmdanna þegar útbúinn var glæsilegur veislusalur á annarri hæð hússins sem tekur um 120 manns í sæti.
Reiðhallarsýningar
Í mars 1988 voru haldnar fjórar sýningar í reiðhöllinni og var húsfyllir í þeim öllum en fjölmennur hópur hestamanna lagði hönd á plóg til að gera sýningarnar að veruleika. Tilgangurinn var að vekja athygli á nýbyggðri reiðhöllinni og bjóða fólki upp á ódýra og góða skemmtun. Fjölmörg góð hross voru sýnd og vöktu sérstaka athygli skeiðsprettir í gegnum höllina. Fáksmenn voru svo með sýningu í reiðhöllinni í tilefni 70 ára afmælisins í maí 1992. Þar var riðin tíguleg fánareið í tilefni afmælsins og reið Sigurður Ólafsson, þá 75 ára, um höllina á fallegum gráum gæðingi. Fákur og sunnlendingar héldu sameiginlega sýningu í maí árið 1993. Vandað var við val á atriðum í sýninguna og tókst hún afar vel. Fákur stóð eitt fyrir stórsýningu hestamanna í Reiðhöllinni um miðjan apríl 1996 og tóks sýningin vel. Komist hefur hefð á reiðhallarsýningar Fáks og hafa þær verið árlegar, seinni part marsmánaðar.
Sigurbjörn Bárðarson íþróttamaður ársins 1993
Hinn 5. janúar 1993 var Sigurbjörn Bárðarsson kjörinn íþróttamaður ársins af íþróttafréttariturum landsins. Þetta kjör Sigurbjörns sem íþróttamann ársins var gleðilegt sérstaklega af þeim sökum að lítið var fjallað í fjölmiðlum um hestaíþróttir. Með þessu kjöri Sigurbjörns var hestaíþróttin loks viðurkennd sem alvöru íþrótt og markaði tímamót í sögu hestaíþróttarinnar á Íslandi. Sigurbjörn átti þarna í harðri samkeppni við Geir Sveinsson, handboltakappa. Þetta var mikil viðurkenning fyrir Sigurbjörn, hans íþróttaiðkun og hestamennskuna í heild sinni. Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður HSÍ sagði af þessu tilefni „Hann er ímynd hins fullkomna íþróttamanns, skipulagður, duglegur og síðast en ekki síst bindindismaður og þar af leiðandi góð fyrirmynd fyrir ungt fólk sem vill ná árangri.“
Sigurbjörn var síðan tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í janúar 2025. Eftirfarandi var sagt um Sigurbjörn að því tilefni:
“Í kvöld bættist knapinn ástsæli Sigurbjörn Bárðarson í hóp meðlima heiðurshallarinnar og er hann sá tuttugasti og sjötti í röðinni. Sigurbjörn á einn lengsta keppnisferil í fremstu röð sem nokkur íþróttamaður hefur átt á Íslandi. Hann hefur keppt í öllum greinum hestaíþrótta í 57 ár, er margfaldur Íslands- og heimsmethafi í skeiðgreinum, hefur 13 sinnum unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramótum og unnið yfir 120 Íslandsmeistaratitla. Þá hefur hann sigrað í flestum greinum landsmóta, nú síðast árið 2022 þá 70 ára gamall.
Sigurbjörn var kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1993, fyrstur knapa og sá eini hingað til. Það ár urðu Sigurbjörn og Höfði frá Húsavík þrefaldir heimsmeistarar á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi. Fimm sinnum hefur hann verið tilnefndur í hóp 10 efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.
Sigurbjörn hefur verið í fararbroddi í ímynd sinnar íþróttagreinar, þróun reiðmennsku og kynningarstarfs Íslandshestamennskunnar um allan heim. Hann hefur verið virkur í félags- og menntamálum hestamanna og setið sem formaður menntanefndar við Háskólann á Hólum í áraraðir. Frá árinu 2018 hefur hann gegnt starfi landsliðsþjálfara A-landsliðs Landssamtaka hestamanna, staðið þar fyrir umbyltingu í öllu afreksstarfi sambandsins og náð eftirtektarverðum árangri.
Sigurbjörn hefur frá upphafi ferils síns verið fyrirmynd annars hestafólks í reglusemi, ástundun, elju og snyrtimennsku og átt þannig stóran þátt í bættri ásýnd og fagmennsku innan íþróttarinnar.
Sigurbjörn hefur hlotið riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga fyrir störf sín í þágu hestaíþrótta á Íslandi. Hann er heiðursfélagi hestamannafélagsins Fáks og Félags tamningamanna, og nú bætast enn ein heiðursverðlaunin við þegar hann er tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.”
Stórmót í Víðidal
Fyrsta stórmótið sem Fákur hélt var fjórðungsmót árið 1956. Fjórðungsmót var svo aftur haldið í Reykjavík árið 1985 tókst vel og sýndi fram á að það var vel hægt að halda stórmót í Reykjavík. Árið 1992 varð Fákur 70 ára og að því tilefni var brugðið út af vananum hvað varðaði hvítasunnukappreiðar félagsins og blásið til stórmóts í Víðidal. Öllum hestamannafélögum í landinu var boðið að senda hesta í gæðingakeppnina og þáðu mörg hestamannafélög boðið en um 30 hestar mættu á mótið í hvorn flokk þ.e. A-flokk og B-flokk. Helgina áður hafði framið fram úrtaka fyrir hvítasunnakappreiðarnar hjá Fáki og höfðu tuttugu efstu hestarnir rétt á að keppa á hvítasunnukappreiðunum. Einnig var boðið upp á töltkeppni á mótinu.
Bið eftir því að Landsmót væri haldið í Reykjavík átti þó eftir að vera löng því það var ekki haldið í Reykjavík fyrr en árið 2000, þrátt fyrir að búið væri að byggja upp gríðarlega góða aðstöðu í Víðidalnum til mótahalds. „Landsmót nýrra tíma“ var yfirskrift þessa móts og hófst það með opnunarhátíð 4. júlí 2000. Í upphafi mótsins var riðin stærðarinnar hópreið í kringum Rauðavatnið. Í fararbroddi var kona í söðli, krakkar riðu með fánaborg og þá kom forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson og borgarstjórinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í kjölfar þeirra komu fimm ráðherrar úr þáverandi ríkisstjórn, Fáksfélagar og síðan hvert hestamannafélagið á fætur öðru. Veðurguðirnir voru mótshöldurum hagstæðir, hestakostur á mótinu var afbragðsgóður og metfjöldi var í skráningu kynbótahrossa á mótinu. Mótið gekk í öllum meginatriðum vel, þrátt fyrir tæknilega örðugleika og mótið tókst vel. Menn voru almennt sammála að þetta hafi verið glæsilegt mót ef litið er framhjá tæknivandræðum og það hefði sýnt sig að grundvöllur væri fyrir því að halda landsmót í Reykjavík og rætt var um „gott sveitamót í höfuðborginni“.
Það átti hins vegar eftir að vera tólf ára bið eftir því að landsmót yrði haldið aftur í Reykjavík en það gerðist næst árið 2012. Mótið þótti vera eitt hið glæsilegasta til þessa og aðbúnaður keppanda aldrei betri. Gestir mótsins voru hinir glaðastir, veðrið lék við mótshaldara, gesti og keppendur og stemningin góð. Mótið var haldið á 90 ára afmæli félagsins og var hápunktur afmælisársins. Haft var eftir Ágústi Sigurðssyni, hrossaræktarráðunauti: „Fáksmenn og félagar sýndu það svo um munar að það er að sjálfsögðu hægt að skipuleggja glæsilegt landsmót hestamanna á höfuðborgarsvæðinu. Á því leikur ekki nokkur vafi.“
Styttra varð í næsta landsmót en það var haldið árið 2018 og var svæðið gert enn glæsilegra en áður. Gerð var ný áhorfendabrekka eða mön gengt Hvammsvellinum og var því hægt að sitja nánast allan hringinn í kringum keppnisvöllinn. Hún gerði það að verkum að það skapaðist meiri nánd á vellinum og kom í stað áhorfendapalla sem þarna höfðu staðið á fyrri landsmótum sem haldin höfðu verið í Víðidalnum. Einnig voru lagðir ljósleiðarar og rafmagn milli allra stjórneininga á svæðinu en tæknilegar kröfur til mótahalds hafa aukist mikið. Mótshaldarar voru ánægðir með mótið og var mótið það stærsta og viðamesta sem haldið hafði verið til þessa. Umgjörðin hafði verið aukin á öllum sviðum og var hið glæsilegasta þrátt fyrir rysjótt veðurfar sem hafði þó ekki áhrif á framgang mótsins.
Ekki var von á því að það yrði haldið annað landsmót í Víðidalnum á næstunni en svo fór að hestamannafélagið Sprettur sem átti að halda mótið árið 2024 leitaði til Fáks um að halda það í Víðidalnum og félögin tvö myndu hjálpast að við að halda mótið. Varð það úr og var Landsmót 2024 haldið í Víðidalnum. Mótið gekk vel og var allt hið glæsilegasta og veðrið lék við mótsgesti. Hestakostur var frábær og var þetta vel heppnað mót í alla staði og stemningin var góð.
Víðidalurinn hefur svo sannarlega stimplað sig inn sem glæsilegt og afar gott mótsvæði fyrir stórmót. Næsta Landsmót verður haldið í Víðidalnum árið 2030.
Reykjavíkurmeistaramót
Íþróttamót hafa lengi verið haldin í Víðidalnum og hefur íþróttamót Fáks hlotið nafnið Reykjavíkurmeistaramót en þar er efsti Fáksfélaginn verðlaunaður sem Reykjavíkurmeistari. Mótið er opið og hefur skapað sér sess sem eitt fjölsæknasta mót sem haldið er á landinu og er stærsta íþróttamót sem haldið er í íslandshestamennskunni. Það varð svo sumarið 2025 sem sett var heimsmet í skráningu á íþróttamót en alls voru 1.027 skráningar á mótið og mótið því stærsta íþróttamót sem haldið hefur verið í sögu Fáks.
Fákur í framvarðasveitinni
Eins og sjá má ef lesin er saga Fáks, hefur félagið oft verið frumkvöðull og verið í forystu félaga í hestamennsku. Það er stórt og mikilvægt hlutverk og vanda þarf til verka í hvívetna til að við getum staðið þá plikt með sóma. Félagsmenn verða að standa vörð um andann og styðja sitt félag hvernig og hvenær sem þeim er unnt til að það megi vaxa og dafna um ókomin ár. Við skoðum söguna ekki nær okkur í tíma að sinni en hvetjum alla til að líta til baka og hugsa fallega til liðinna tíma í Fáki . Ágrip þetta er unnið upp úr bókunum Á fáki fráum, sem ritstýrð var af Valdimar H. Jóhannessyni og útgefin árið 1992 í tilefni af 70 ára afmæli Fáks, Fákur fimmtugur, en þar var efnisöflun í höndum Kristjáns Guðmundssonar og Sig. Hauks Guðjónssonar og var hún gefin út 1972 í tilefni af 50 ára afmæli Fáks, Fákur sem Einar E. Sæmundsen bjó til prentunar árið 1949 í tilefni af 25 ára afmæli Fáks og bókin Fákur – þarfasti þjónninn í Reykjavík, skrifuð af Helga Sigurðssyni í tilefni af 100 afmæli Fáks. Þessar bækur eru dýrmætur brunnur sem sækja má í sögu og góðar minningar félagsins.
Formenn Fáks
| 1922 – 1937 | Daníel Daníelsson |
| 1938 – 1948 | Björn Gunnlaugsson |
| 1949 – 1952 | Bogi Eggertsson |
| 1953 – 1966 | Þorlákur Ottesen |
| 1967 – 1972 | Sveinbjörn Dagfinnsson |
| 1973 – 1975 | Sveinn K. Sveinsson |
| 1976 – 1981 | Guðmundur Ólafsson |
| 1982 – 1985 | Valdimar K. Jónsson |
| 1990 – 1994 | Viðar Halldórsson |
| 1994 – 1996 | Sveinn Fjelsted |
| 1996 – 2000 | Bragi Ásgeirsson |
| 2000 – 2005 | Snorri B. Ingason |
| 2005 – 2010 | Bjarni Finnsson |
| 2010 – 2012 | Valgerður Sveinsdóttir |
| 2012 – 2013 | Rúnar Sigurðsson |
| 2013 – 2025 | Hjörtur Bergstað |
| 2025 – | Hlíf Sturludóttir |





