Siðareglur Fáks
Siðareglur Fáks voru þannig samþykktar á fundi stjórnar félagsins 22. september 2025.
Félagsstarf Hestamannafélagsins Fáks byggir á vinnu sjálfboðaliða og áhugafólks um félagsstarfið og hestamennsku í Reykjavík.
Markmið siðareglna er að skapa umgjörð um félagsstarfið þannig að allir taki siðferðislega ábyrgð á störfum sínum, framkomu og framgöngu og eru siðareglurnar almennar leiðbeiningar til félagsmanna bæði í leik og starfi. Félagið vill skapa umhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af samvinnu og fagmennsku og eru siðareglur hluti af félagsanda félagsins. Siðareglum er einnig ætlað að vernda orðspor félagsins, ímynd þess og trúverðugleika.
Siðareglur Fáks eiga við um alla félaga í hestamannafélaginu Fáki, starfsmenn félagsins, stjórn, nefndarfólk og sjálfboðaliða. Siðareglurnar eiga einnig við í öllu starfi, mótum og öðrum viðburðum sem skipulagðir eru af félaginu. Siðareglurnar skal kynna öllum félagsmönnum og vera aðgengilegar á vef félagsins. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér efni siðareglnanna og starfa eftir þeim í öllu starfi sínu á vegum félagsins.
- Við komum fram af fullkomnum heilindum og háttvísi í störfum okkar fyrir félagið. Við leggjum áherslu á fagmennsku, heiðarleika og sanngirni í þeim verkefnum sem við tökum að okkur og samskiptum sem við eigum fyrir hönd félagsins.
- Við sinnum öllu starfi okkar fyrir félagið með hagsmuni þess að leiðarljósi og stöndum vörð um markmið þess og heiður.
- Við gætum trúnaðar og þagmælsku í störfum okkar en þó innan takmarkana lögboðinnar tilkynningarskyldu.
- Við berum virðingu fyrir tíma hvors annars og mætum á réttum tíma í verkefni og fundi á vegum félagsins.
- Við misnotum ekki valdastöðu okkar eða hvers konar yfirburði sem við kunnum að hafa yfir öðrum.
- Við gætum jafnræðis og vörumst að misbjóða virðingu einstaklinga eða hópa t.d. hvað varðar kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, félagslega stöðu, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins.
- Við tökum aldrei, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti þátt í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar viðburðum eða viðskiptum í tengslum við íþróttaviðburði sem við getum haft áhrif á.
- Við þiggjum hvorki gjafir eða hlunnindi sem geta leitt til þess að rýra trúverðugleika, sjálfstæði eða hlutleysi okkar.
- Við gætum þess að okkar eigin hagsmunir eða hagsmunir aðila okkur nákomnum hafi ekki áhrif á ákvarðanir okkar á vettvangi félagsins.
- Við berum virðingu fyrir hvort öðru og komum í veg fyrir að innan félagsins viðgangist eða líðist illmælgi eða hvers konar óréttlæti, svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á óviðkomandi þáttum svo sem kynferði, aldri, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun eða kynhneigð.
- Við umgöngumst hesta og önnur dýr á þann hátt sem dýraverndunar- og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi segja til um hverju sinni með vísan til laga og reglugerða um dýravernd- og dýravelferð.