Forvarnarstarf
Íþróttastarf er uppeldisstarf og á það jafnt við hestaíþróttir sem og aðrar íþróttir. Pollar, börn, unglingar og ungmenni læra í umgengni sinni við hestinn, sem og í félagsstarfinu að fylgja settum reglum og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Þjálfarar hafa þar mikilvægu uppeldishlutverki að gegna og eru fyrirmyndir æskulýðsins.
Félagið hefur mótað sér stefnu í fræðslu- og forvarnarmálum og hefur það að leiðarljósi að starfa samkvæmt stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni. Félagið hefur sett sér viðbragðsáætlun vegna ofbeldis og eineltis og vísar á samskiptaráðgjafa ÍSÍ ef upp koma slík mál innan félagsins. Viðbragðsáætlunina má finna á vef félagsins (https://fakur.is/um-fak/reglur-stefnur-og-vidmid/vidbragdsaaetlun/). Upplýsingar um samskiptaráðgjafa er að finna hér: https://www.samskiptaradgjafi.is/ en tengil á vefsíðu samskiptaráðgjafa er að finna á heimasíðu félagsins.
Sé einhver vafi á úrlausn mála sem upp kunna að koma hjá félaginu er varðar ofbeldis og eineltismál er samstundis leitað til samskiptaráðgjafa um aðstoð við úrlausn málsins.
1.1. Forvarnarstefna um vímuefni
Íþróttir gegna mikilvægu hlutverki í vímuvörnum og eru hestaíþróttir þar ekki undanskildar. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að þeim ungmennum sem eru virk í íþróttastarfi reiðir betur af í daglegu lífi og neyta síður vímuefna. Einnig er ljóst að neysla áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna hefur skaðleg áhrif á árangur í íþróttum. Félagið vill taka mjög skýra afstöðu gegn neyslu allra vímuefna í tengslum við ástundun íþróttarinnar. Í þessari stefnuyfirlýsingu er talað um vímuefnaneyslu og er þá átt við neyslu áfengis, tóbaks og annarra vímuefna sem og neyslu hormónalyfja sem ekki eru tekin í lækningalegum tilgangi eftir tilvísun læknis.
Ástundun íþrótta og neysla áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna fara ekki saman. Vímuefni fara heldur ekki saman við umgengni við hestinn og þjálfun hans. Félagið hvetur þjálfara sína og iðkendur til að forðast öll þau efni sem dregið geta úr árangri þeirra í íþróttinni og skaða heilsu þeirra. Þjálfarar og eldri iðkendur eru fyrirmyndir yngri iðkenda bæði í orði og í verki. Félagið hvetur þá til að standa vörð um þá miklu ábyrgð sem þeir bera gagnvart iðkendum og gagnvart hestinum.
Í þessu sambandi hefur félagið markað sér ákveðna vímuvarnarstefnu til að fylgja eftir:
1.1.2. Neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuefna
Öll neysla á vímuefnum hvers konar er bönnuð í tengslum við æfingar og námskeið á vegum félagsins, sem og neysla keppenda í keppni á vegum þess. Öll áfengisneysla er bönnuð á viðburðum á vegum æskulýðsnefndar.
- Viðbrögð félagsins við neyslu iðkenda
Félagið mun bregðast sérstaklega við allri vímuefnaneyslu iðkenda undir 18 ára aldri og þá verða foreldrar félagsmanna undir 18 ára aldri undantekningarlaust látnir vita af slíkri neyslu. Kvikni grunur um neyslu ólöglegra vímuefna skulu þjálfarar hafa samráð við fagaðila, þar með talið lögreglu, um viðbrögð við slíkum málum.
Varðandi viðbrögð við vímuefna- og tóbaksneyslu þeirra sem eru sjálfráða mun félagið bregðast við neyslu sem er brot á reglum félagsins og neyslu sem hefur áhrif á ástundun, frammistöðu og ímynd félagsins. Viðbrögð félagsins við brotum á reglum þessum verða í formi tilmæla og ábendinga. Skili viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundins banns frá æfingum og/eða keppni. Viðbrögð félagsins skulu miðast við að aðstoða iðkandann við að laga sig að reglunum og að hann fái færi á að halda áfram starfi innan félagsins.
- Hlutverk og ábyrgð þjálfara
-
- Þjálfarar skulu vinna eftir vímuvarnarstefnu félagsins. Þar með er talið að bregðast við vímuefnaneyslu iðkenda á viðeigandi hátt.
- Þjálfarar skulu framfylgja stefnu félagsins varðandi samstarf foreldra og annarra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga.
- Þjálfarar skulu gæta þess að vera iðkendum til fyrirmyndar jafnt á æfingum sem í daglegu lífi.
- Samstarf við foreldra
- Félagið mun upplýsa foreldra um stefnu félagsins í vímuvörnum.
- Félagið leggur áherslu á að koma á og viðhalda góðu samstarfi við foreldra iðkenda með fræðslu um áhrif áfengis, tóbaks og annarra vímuefna á árangur í íþróttum.
- Félagið mun starfa með fagfólki í vímuvörnum og hafa samráð við foreldra þurfi að taka á neysluvandamáli iðkenda undir sjálfræðisaldri.
- Félagið mun hafa samstarf við fagaðila sem sinna börnum og unglingum, fá frá þeim fræðsluefni og hafa samráð um einstaklinga í áhættuhópi.
- Samstarf við aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga.
- Félagið mun hafa samstarf við fagaðila sem sinna börnum og unglingum, fá frá þeim fræðsluefni og hafa samráð um einstaklinga í áhættuhópi.
1.3. Hollir lífshættir
Árangur í íþróttum byggir ekki aðeins á góðri þjálfun heldur einnig góðum og heilbrigðum lífsháttum. Næg hvíld og svefn, hollt matarræði, reglulegar máltíðir og næg vatnsdrykkja skipta máli til að ná þeim árangri sem stefnt er að.
1.4. Vinátta virðing og samskipti
Hjá félaginu er lögð áhersla á vináttu, gagnkvæma virðingu og góð samskipti. Einelti er ekki liðið. Einnig er mikilvægt að þjálfarar hvetji iðkendur með jákvæðum hætti og að iðkendur hrósi hvor öðrum þegar vel gengur. Með félagsstarfi er stefna félagsins að byggja upp jákvæðan félagsanda, stuðla að vináttu og efla liðsanda.
1.5. Einelti
Komi upp eineltismál í störfum félagsins skal undantekningalaust hafa samband við samskiptaráðgjafa ÍSÍ. Einelti er síendurtekið ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast ítrekað á einhvern einstakling. Ofbeldið getur verið félagslegt, líkamlegt, efnislegt eða andlegt:
- Félagslegt einelti: Einstaklingur er skilinn útundan, er strítt, gert lítið úr honum eða gerðar særandi athugasemdir (svipbrigði, andvörp, eftirherma o.fl.).
- Líkamlegt einelti: Einstaklingi er hrint, sparkað í hann, hann árreittur, klipinn o.s.frv. Einstaklingi haldið föstum eða hann lokaður inni.
- Efnislegt einelti: Eigur viðkomandi eru ítrekað eyðilagðar, faldar eða teknar.
- Andlegt einelti: Einstaklingur er þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd hans (t.d. girt niður um hann, hann þvingaður til að eyðileggja eigur annarra) eða hann fær neikvæð skilaboð og hótanir.
Ef grunur vaknar um einelti:
- Skal tilkynna það beint til samskiptaráðgjafa ÍSÍ. Einnig er hægt að tilkynna einelti til framkvæmdastjóra félagsins og hann hefur samband við samskiptaráðgjafa ÍSÍ.
Hlutverk þjálfara í að draga úr líkum á einelti:
- Þjálfarar skulu sérstaklega gæta þess að tryggja viðhlítandi aga og koma í veg fyrir einelti eftir bestu getu.
- Þjálfarar reyna að koma í veg fyrir alla þá þætti sem dregið getur úr vináttu, virðingu og góðum samskiptum.
- Þjálfarar hafa samráð við yfirþjálfara ef þeir telja ástæðu til að bregðast við aðstæðum iðkanda sem draga úr vináttu, virðingu og góðum samskiptum.
- Þjálfari er hvattur til að ræða málin við iðkenda ásamt yfirþjálfara, komi upp atvik er varða einelti.
- Þjálfari og yfirþjálfari eru hvattir til að bregðast við aðstæðum sem þeir telja alvarlegar með því að hafa samband við foreldra/forráðamenn iðkenda.
Frekari upplýsingar um einelti og viðbrögð við því má finna í viðbragðsáætlun félagsins sem er að finna á vefsíðu þess https://fakur.is/um-fak/reglur-stefnur-og-vidmid/vidbragdsaaetlun/, og upplýsingar um samskiptaráðgjafa ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ https://www.isi.is/fraedsla/samskiptaradgjafi-ithrotta-og-aeskulydsstarfs/
1.6. Kynferðislegt ofbeldi og áreitni
Félagið vill sporna við því í hvívetna að kynferðislegt ofbeldi geti átt sér stað innan félagsins eða í tengslum við starfsemi þess. Félagið mun kynna félagsmönnum árlega á miðlum sínum viðbragðsáætlun sína um ofbeldi, einelti og kynferðislega áreitni. Rétt er að geta þess að kynferðislegt ofbeldi er lögreglumál og slíkum málum skal umsvifalaus vísað þangað og ekki skal reyna að leysa þau innan félagsins.
Frekari upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi og áreitni er að finna í viðbragðsáætlun félagsins, sem er að finna á vefsíðu þess https://fakur.is/um-fak/reglur-stefnur-og-vidmid/vidbragdsaaetlun/, og upplýsingar um samskiptaráðgjafa ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ https://www.isi.is/fraedsla/samskiptaradgjafi-ithrotta-og-aeskulydsstarfs/
Samþykkt á stjórnarfundi 1. desember 20025.