Að gefnu tilefni viljum við minna ykkur kæru hestamenn á að sýna hver öðrum almenna tillitssemi á reiðstígum, það er góð venja að hægja vel á sér þegar öðrum er mætt eða farið fram úr. Knapar eru mislangt komnir í hestamennsku og hestar þeirra á öllum þjálfunarstigum og því er um að gera að taka tillit til og bera virðingu hvor fyrir öðrum.
Einnig er gott að hafa það í huga að hægri reglan gildir á reiðgötum alveg eins og út í umferðinni þannig að ríða skal hægra megin á reiðvegi, eins nálægt kanti og hægt er. Þegar hestur er teymdur á reiðvegi skal hann teymdur hægra megin á veginum og skal maðurinn vera næst umferðinni sem kemur á móti, þ.e.a.s. vinstra megin við hestinn sem hann teymir.
Jafnframt er rétt að ríða rólega í gegnum undirgöngin á svæðinu þar sem hestum getur brugðið og fælst ef riðið er hratt út úr göngunum á móti þeim, því er mjög gott að venja sig á fetganginn að og frá göngum.
En um að gera að njóta frábærra útreiðaleiða og veðurs þessa dagana 🙂