Það verður nóg að gera hjá okkur hestamönnum á höfuðborgarsvæðinu um helgina. En helgin byrjar með því að Fákskonur taka á móti Sprettskonum. Lagt verður af stað frá TM-Reiðhöllinni í kvöld klukkan 18:15. Skráning í matinn um kvöldið fer fram á facebook síðu kvennadeildar, Fákskonur.
Á morgun tökum við Fáksmenn á móti Harðarmönnum og verður að sjálfsögðu riðið á móti þeim og leggur Ómar af stað frá TM-Reiðhöllinni klukkan 14:00.
Hið margrómaða kökuhlaðborð Kvennadeildar Fáks verður á morgun frá klukkan 14:00 – 17:00 í salnum á 2 hæð TM-Reiðhallarinnar. Þeir sem geta lagt kvennadeild lið með kökur og aðrar veitingar eru hvattir til að koma með þær frá klukkan 11 í salinn og svo er öll aðstoð í sal og við frágang að sjálfsögðu vel þegin.
Skrúðreið hestamanna er einnig á morgun laugardag og leggur hún af stað klukkan 12:30 í miðbæ Reykjavíkur. Það eru allir velkomnir að taka þátt í henni og er mæting í hana klukkan 12:00 á malarstæðin við Læknagarð (við BSÍ). Nánari upplýsingar um skrúðreiðina má finna hér.
Á sunnudaginn er svo komið að hinni geysivinsælu sýningu Æskan og hesturinn en hún fer fram í TM-Reiðhöllinni. Tvær sýningar eru í boði og hefjast þær klukkan 13:00 og 16:00. Frítt er inn á sýninguna á meðan húsrúm leyfir.