Gunnar og Kristbjörg hlutu Ræktunarbikar Fáks 2015 fyrir stóðhestinn sinn Andvara frá Auðsholtshjáleigu og óskum við þeim til hamingju með það. Þetta er alls ekki í fyrsta og sennilega ekki í seinasta sinn sem þau hljóta þennan farandbikar enda margsannað að þau kunna að rækta hross og ná árangri í því sem þau taka sér fyrir hendur.
Ræktunarbikar Fáks er farandsbikar sem Rangárbakkar gáfu Fáki í tilefni 85 ára afmælis félagsins (2007). Bikarinn er veittur þeim félagsmanni/mönnum sem hafa ræktað og eiga hæst dæmda kynbótahrossið það árið. Í ár var það Andvari frá Auðsholtshjáleigu sem átti hæsta dóminn. Andvari er aðeins fimm vetra gamall og varð meðal annars heimsmeistari í þeim flokki á Heimsmeistaramótinu í Herning í sumar.
Andvari hlaut 8,61 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir háls og herðar, samræmi, prúðleika, stökk og vilja og geðslag enda glæsilegur hestur á velli og í reið. Andvari er ekki bara ræktaður af þeim Gunna og Krissu, heldur eru foreldrar hans ræktaðir af þeim svo árangurinn er margfaldur. Andvari er undan Gára frá Auðsholtshjáleigu og Fold frá Auðsholtshjáleigu.
Til hamingju með glæsilegan hest en Andvari hefur flutt sig um set og á nú lögheimili í Þýskalandi.

Andvari_2927

Mynd: isibless.de