Hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu, Hörður, Fákur, Sprettur, Sörli og Sóti hafa ákveðið að taka höndum saman ásamt Íshestum, sem eru aðal styrktaraðili keppninnar, og setja á laggirnar Meistarakeppni æskunnar. Meistarkeppni æskunnar og Íshesta er opin mótaröð með fjórum mótum, sem eru hvert og eitt eru sjálfstæð mót, en einnig safna knapar stigum og í lokin verða svo þrír stigahæstu einstaklingarnir í hverjum flokki verðlaunaðir (barnaflokkur, unglingaflokkur og ungmennaflokkur). Hægt er að taka þátt í einu, tveimur, þremur eða öllum mótunum en í lokin verður sigurhátíð þar sem þrír stigahæstu einstaklingarnir verða verðlaunaðir. Einnig verða á hverju móti veitt svokölluð jákvæðisverðlaun s.s. fyrir prúðmannlega reiðmennsku, fallega ásetu, mestu tilþrifin, snyrtilegasta parið osfrv.
Mótin verða seinnipartinn á sunnudögum (tímasetningar fara eftir skráningafjölda) og verða eftirfarandi mót í Meistarakeppni æskunnar og Íshesta:
- 1. mars Töltmót í Herði
- 22. mars Smali/þrautabraut í Fáki
- 19. apríl Fjórgangur í Spretti
- 26. apríl Fimmgangur í Fáki og er sú keppni hluti af Líflandsmóti í unglinga og ungmennaflokki (ekki keppt í fimmgangi í barnaflokki).
Íshestar eru aðal styrktaraðilar Meistarakeppninar en við þurfum einnig ykkar stuðning og hvetjum við því alla foreldra/fyrirtæki til að leggja hönd á plóg og styrkja okkur smávegis því margt smátt gerir okkur kleift að sinna þessu fjöreggi okkar hestamanna, sem eru börn, unglinga og ungmenni þannig að þau styrkist og eflist í sinni hestamennsku. Þeir sem af góðmennsku sinni vilja styrkja þessa mótaröð geta sent póst á á fakur@fakur.is .
Allir að fara að þjálfa fyrir Meistarakeppni æskunnar og Íshesta.